135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[17:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þingsályktunartillaga um endurskoðun á skattamálum lögaðila sem hv. þm. Ellert B. Schram hefur mælt fyrir er allrar athygli verð. Ég tek undir þau meginsjónarmið þingsályktunartillögunnar að það verði kannað hvernig háttað sé jafnræði skattlagningar í tengslum við stofnun einkahlutafélaga. Í greinargerð með tillögunni er rakin þróun þessara mála frá því að lög voru sett sem lækkuðu tekjuskatt á atvinnurekstur árið 2001. Síðan er rakin gríðarleg fjölgun á einkahlutafélögum í tengslum við margs konar rekstur.

Ég vil víkja að þeim mun sem skapast milli þeirra aðila sem fá tekjurnar, þ.e. ef um venjulegan tekjuskatt er að ræða rennur útsvarið til sveitarfélaganna en sé um að ræða skatt á arðgreiðslur eða fjármagnsskatt og annað þá rennur það beint til ríkisins. Þetta hefur orsakað mun á milli tekna sveitarfélaganna annars vegar og ríkissjóðs hins vegar. Sveitarfélög hafa ítrekað gert athugasemdir við þessa þróun og óskað eftir því að þetta fyrirkomulag verði tekið upp. Talað var um að með þessari breytingu sem hefði orðið á síðustu árum hefðu jafnvel nokkrir milljarðar færst frá tekjustofnum sveitarfélaga yfir til ríkisins.

Ég man ekki betur en að í haust hafi forustumenn, bæði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem nú mynda ríkisstjórn, verið með digrar yfirlýsingar um að þessu fyrirkomulagi yrði breytt, að sveitarfélögin fengju hlutdeild í fjármagnstekjuskatti, í þeim skatti sem tengist einkahlutafélögum, bæði skatti af arðgreiðslu og svoleiðis. Ég minnist yfirlýsinga frá leiðtogum í sveitarstjórnarmálum af hálfu þessara flokka, hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, varaformanns fjárlaganefndar, og hv. þm. Gunnars Svavarssonar sem er í bæjarstjórn í Hafnarfirði og formaður fjárlaganefndar. Þeir voru með miklar yfirlýsingar í þessu sambandi. Hv. flutningsmaður er í flokki með öðrum þessara höfðingja, hv. þingmanna sem ég nefndi. Fleiri hafa síðan komið inn á þessa liði og þetta hefur sannarlega verið baráttumál margra sveitarstjórnarmanna, að þarna komist á jafnræði.

Ekkert hefur gerst í þessu máli. Ekki neitt. Ég held að það hljóti að valda vonbrigðum miðað við öll þau sterku orð af hálfu forustumanna og áhrifamanna ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum að ekkert skuli hafa gerst. Ég sé að hv. þingmaður, þótt ég ætli alls ekki að gera lítið úr því að hann gerir það af fullum myndugleik, er einn flutningsmaður þessarar tillögu. En stór angi þessa máls er stórpólitískur og lýtur að þessari skiptingu og um hana hefur verið deilt.

Ég tek undir tilganginn með þingsályktunartillögunni, að þetta verði endurskoðað og kannað. En ég vil jafnframt spyrja hv. þingmann um stöðu umræðunnar, m.a. innan Samfylkingarinnar, hvað varðar ráðstöfun á sköttum á fjármagnstekjur og af arði og hagnaði sem nú rennur til ríkisins en sveitarfélögin hafa gert tilkall til að fá a.m.k. bætt með einhverjum hætti, frú forseti.