135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[17:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem eingöngu upp í þennan ræðustól til að lýsa stuðningi við þingsályktunartillögu, um endurskoðun á skattamálum lögaðila, sem hv. þm. Ellert B. Schram hefur flutt og gert grein fyrir. Ég tel að um mjög þarft mál sé að ræða og nauðsynlegt að fjármálaráðherra endurskoði skattamál lögaðila, einkum einkahlutafélaga.

Eins og kemur fram í greinargerðinni eru fjölmargar ástæður til að skoða þessi mál að nýju, bæði fjöldi einkahlutafélaganna, sá skrýtni arður sem greiddur er upp á 650% í mörgum tilfellum, tæplega tvö þúsund tilfellum o.s.frv. Þetta þarf líka að skoða með tilliti til þess hvort þarna er um óeðlilegan arðshluta að ræða o.s.frv. og hvort þau lög sem sett voru á sínum tíma um einkahlutafélögin hafi yfirleitt náð þeim tilgangi sem ætlast var til. Það er því nauðsynlegt að þeirra upplýsinga sem hér er óskað eftir verði aflað og unnin um það samantekt sem þingsályktunartillagan gengur út á. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta nauðsynlega mál.