135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[17:40]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um yfirtöku ríkisins á Speli ehf. og niðurfellingu veggjalds um Hvalfjarðargöng. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir og Þuríður Backman. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra og fjármálaráðherra að semja um yfirtöku ríkisins á Speli ehf. í því skyni að veggjald um Hvalfjarðargöng verði fellt niður eigi síðar en 1. júní 2008. Gert verði ráð fyrir kostnaði við verkefnið á fjárlögum ársins 2008.“

Þessi tillaga var borin inn í þingið og flutt í haust áður en fjárlög fyrir árið 2008 voru afgreidd en kemur fyrst til umræðu nú. Tillagan er á ýmsan hátt efnislega samhljóða hvað markmið varðar frumvarpi sem var til umræðu fyrr í dag í hv. Alþingi þar sem flutningsmenn voru hv. þingmenn Frjálslynda flokksins og gert er ráð fyrir að sett verði sérstök fjáraukalög sem kveði á um heimild fyrir ríkisstjórnina til að innleysa skuldir Spalar ehf. og yfirtaka þar með hlutverk þess, þ.e. eign og rekstur Hvalfjarðarganga. Ég mun því ekki fara mikið inn á þá ágætu umræðu sem var hér fyrr í dag um sama efni en gera grein fyrir hvernig þessi tillaga gerir ráð fyrir að nálgast málið á nokkuð annan hátt.

Árið 1990 stofnuðu Vegagerðin, Járnblendifélagið hf. og Akranesbær félag um jarðgangagerð undir Hvalfjörð. Ári síðar stofnuðu þessir aðilar hlutafélagið Spöl ehf. Gangagerðin var boðin út 1994, framkvæmdir við göngin hófust 1996 og þau voru opnuð fyrir umferð tveimur árum síðar, þ.e. 1998.

Með opnun Hvalfjarðarganga 11. júlí 1998 varð að veruleika samgöngumannvirki sem ekki var á dagskrá af hálfu ríkissjóðs og framkvæmdin var ekki á þágildandi samgönguáætlun. Spölur ehf. vann að verkefninu á grundvelli sérstakra laga og samnings við ríkissjóð sem heimiluðu félaginu að fjármagna, byggja og reka Hvalfjarðargöng. Opinberir aðilar áttu og eiga meiri hluta í Speli ehf. og kveðið er á um að ríkinu verði afhent göngin til eignar þegar þau hafa verið borguð upp, sem gert var ráð fyrir að yrði á 20 árum.

Öllum er kunnugt hvernig félaginu hefur tekist að uppfylla þau markmið sem sett voru í upphafi. Árangurinn af starfi félagsins er sá að umferð hefur aukist verulega milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands og jákvæð áhrif vegtengingarinnar er langt umfram væntingar. Aukin umferð hefur gefið meiri tekjur en spáð var og það hefur gert mögulegt að lækka veggjöldin, sömuleiðis var árið 2005 samið um endurfjármögnun lána á hagstæðari kjörum. Að óbreyttu mun Spölur greiða lán sín að fullu 2018 og göngin þá renna til ríkissjóðs eins og samningar og lög gera ráð fyrir. Í upphafi var gengið út frá því að vegfarendur hefðu val um að aka Hvalfjarðargöng eða Hvalfjörðinn. Reynslan er sú að vel yfir 90% vegfarenda nota Hvalfjarðargöng og líta svo á að göngin séu eðlilegur hluti af vegakerfi landsmanna. Þrátt fyrir að Hvalfjarðargöng hafi verið byggð á ákveðnum forsendum um að veggjald greiddi upp stofnkostnað þá hafa forsendur breyst að því leyti að göngin eru eina vegamannvirkið á Íslandi þar sem sérstakri gjaldtöku er beitt. Ríkissjóður hefur haft margs konar hag af verkefninu sem m.a. kemur fram í mun minni stofnkostnaði og rekstri vegarins fyrir Hvalfjörð auk margs konar samfélagslegs ávinnings sem m.a. felst í styttri vegalengdum. Það sjónarmið að áframhaldandi gjaldtaka um Hvalfjarðargöng sé ósanngjörn á því rétt á sér í ljósi þess að aðrir vegir sem gerðir eru af ríkinu eru án veggjalds og ekki liggur fyrir nein heildarstefnumótun um hvort eða hvernig ríkið hyggst beita álagningu veggjalda við byggingu og rekstur umferðarmannvirkja. Jafnræðissjónarmið kalla því á að gjaldtöku þessari verði aflétt.

Þingmál um þetta efni hafa áður verið flutt. Meðal annars lagði Guðjón Guðmundsson á 131. löggjafarþingi fram þingsályktunartillögu um niðurfellingu eða verulega lækkun veggjalds í göngunum og er tillaga hans fylgiskjal með þessari tillögu. Þá voru málefni Hvalfjarðarganga talsvert til umræðu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og var þá einkum vakin athygli á því hversu mikil mismunun fælist í því fyrirkomulagi að innheimta veggjöld í göngunum, einum samgöngumannvirkja. Það viðhorf kom m.a. fram hjá oddvita Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og hét hann því að beita sér fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi.

Í greinargerð tillögunnar er vísað í grein hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í Morgunblaðinu 12. febrúar 2007 þar sem rakin eru þau sjónarmið sem hann hefur síðan vikið að og ítrekað í umræðunni á Alþingi í dag.

Að mati flutningsmanna er skynsamlegasta leiðin sú að ríkið yfirtaki einkahlutafélagið Spöl og þar með allar skuldbindingar þess. Með því væri lúkningu þeirra samninga sem gerðir voru við Spöl ehf. árið 1995 flýtt. Þá yrði samhliða tekin ákvörðun um að fella niður veggjöldin í göngunum en í vegáætlun hvers árs yrði gert ráð fyrir framlagi til að standa undir rekstri ganganna eins og öðrum vegamannvirkjum og greiðslu áhvílandi lána vegna framkvæmdarinnar til ársins 2018. Nú munu lán Spalar ehf. nema um 3,9 milljörðum kr., en þar af er m.a. skuld við lífeyrissjóði um 2,7 milljarðar kr. og lánstími þeirra til ársins 2018. Rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganga er um 200 millj. kr. á ári, en niðurfelling veggjalds mundi lækka kostnað af rekstri ganganna.

Herra forseti. Fylgiskjöl með þessari þingsályktunartillögu eru eins og ég sagði áðan tillaga til þingsályktunar um veggjald í Hvalfjarðargöng en flutningsmaður hennar var þáverandi hv. þm. Guðjón Guðmundsson og auk þess grein um þetta efni sem sá er hér stendur hefur skrifað. Þá ber og að vísa til fjölda samþykkta frá sveitarfélögunum á Vesturlandi í þá veru að þeirri mismunun sem þarna á sér stað verði aflétt og að íbúar þar og aðrir vegfarendur sem fara í gegnum Hvalfjarðargöng sitji við sama borð og aðrir og greiði ekki sérstaklega fyrir það.

Sú tillaga sem hér er flutt lýtur að því að í raun verði Hvalfjarðargöngin tekin inn á vegáætlun þannig að leitað verði samninga á þeim grunni að kostnaður sem á þeim hvílir enn verði hluti af samgönguáætlun á hverjum tíma en auðvitað má nálgast málið frá ýmsum hliðum. Þess vegna er einmitt gert ráð fyrir því að þessi þingsályktunartillaga gangi til samgöngunefndar til meðferðar vegna þessarar nálgunar málsins.

Það er mjög fróðlegt að sjá að á heimasíðu Spalar ehf. kemur fram að umferð hefur orðið mun meiri um göngin en búist var við eins og vikið var að áðan og að samtals fóru 2 millj. og 30 þúsund bílar um Hvalfjarðargöng á árinu 2007 eða 9,3% fleiri en árið 2006. Þetta er í fyrsta sinn sem ársumferðin nær 2 milljónum bíla frá því að göngin voru opnuð og hún hefur í rauninni tvöfaldast frá árinu 1999.

Hægt er að víkja að ýmsu sem kom fram í umræðunni um Hvalfjarðargöngin fyrr í dag en rökin á sínum tíma fyrir því að þessi leið var valin eru eins komið hefur fram m.a. þau að þetta þótti eina færa leiðin til að fjármagna og taka þá áhættu sem menn töldu að fælist í gangagerðinni. Í öðru lagi væri leiðin fyrir botn Hvalfjarðar raunverulegur valkostur þannig að þeir sem ekki vildu fara í göngin eða efna til þess kostnaðar sem það hefði í för með sér ættu möguleika á því að keyra fyrir Hvalfjarðarbotn. Raunin er allt önnur. Raunin er sú að Hvalfjarðargöngin eru orðin fastur hluti af þjóðvegakerfi landsins, af hringveginum, og er því í hæsta máta eðlilegt að göngin fái þann sess í þjóðvegakerfi landsins og þar af leiðandi líka að sá kostnaður sem á þeim hvílir enn verði tekinn á vegáætlun til næstu ára eins og hér er varpað fram en vegfarendur fari um göngin með sama hætti og um aðra þjóðvegi landsins.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa tillögu. Ég legg áherslu á að það er skoðun mín og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þjóðvegakerfi landsmanna eigi að vera í opinberri eigu og á ábyrgð hins opinbera og áform um einkavæðingu á einstökum vegarköflum og allar hugmyndir í þá veru séu í rauninni fáránlegar. Vegakerfið í landinu er samfélagsmál og á að vinnast og framkvæmast sem slíkt. Þó að þessi framkvæmd á vegum Spalar á sínum tíma væri sérstök og með sérstökum lögum og væri gott mál þá og hafi reynst vel þá var einmitt líka mikilvægt í þeirri lagasetningu og þeirri samningsgerð að ríkið mundi í rauninni eignast framkvæmdina að lokum og það væri aðeins tímaspursmál hvenær svo yrði. Og í ljósi þeirra breyttu aðstæðna sem ég hef hér rakið teljum við flutningsmenn að það sé eðlilegast að ríkið gangi nú þegar til þess verks að Hvalfjarðargöngin verði hluti af hinu almenna þjóðvegakerfi landsmanna.

Herra forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. samgöngunefndar þar sem gert er ráð fyrir að þetta komi inn sem hluti af vegáætlun til næstu ára.