135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[17:56]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera alveg hárrétt ábending hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Það er raunverulega verið að skattleggja vegfarendur þessara ganga umfram aðra vegfarendur á þjóðvegakerfi landsins. Fyrir þá sem eru háðir því atvinnu sinnar vegna og búsetu að fara kannski tvisvar um göngin á dag er þetta umtalsverður skattur. Auk þess leggst þetta líka á flutningskostnað vara til og frá höfuðborgarsvæðinu og kemur þannig líka sem skattur. Það er sama hvernig á málið er litið, það er mikið sanngirnis- og réttlætismál að sértæk skattlagning af þessu tagi eins og á við um Hvalfjarðargöngin verði felld niður. Mér finnst það vera hárrétt og góð ábending hjá hv. þingmanni, hversu mikið sanngirnis- og réttlætismál þetta er og krafan um jafnræði einmitt hvað skattlagningu varðar.