135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[18:00]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil draga enn eitt inn í þessa umræðu í tilefni af orðum hv. þm. Guðna Ágústssonar. Það eru hin sálrænu áhrif. Það er ekki innbyggt í íslenska þjóðarsál, sem betur fer, að við eigum að borga okkur eftir þjóðvegakerfi landsins. Þetta er eina tilvikið sem um það er að ræða. Þetta misbýður að mínu viti jafnræðiskennd okkar að koma að því sem margir líta á sem eins konar sem hlið að höfuðborgarsvæðinu. Maður upplifir þetta svolítið sem hlið eða ytri borgarmúra höfuðborgarsvæðisins og þar þurfi menn að borga fyrir sig inn. Fyrir norðvestursvæðið held ég að flestir upplifi þetta eins og hv. þingmaður nefnir, sem sértækan skatt. Ég held að fæstir upplifi það lengur þannig að þeir taki þátt í að byggja upp þetta samgöngumannvirki. Hvers vegna skyldi það vera þannig í dag, þótt rök hafi verið fyrir því á sínum tíma?

Mér kom á óvart þegar háttvirtir þingmenn fjölluðu í umræðunni í dag um Vaðlaheiðargöng, að þar kæmi til tals að taka slíkan skatt, ef þau kæmu. Ég man ekki betur en að núverandi samgönguráðherra Kristján L. Möller legði mikla áherslu á það í kosningabaráttunni í Norðausturkjördæminu að þetta ætti að vera ríkisframkvæmd og ætti ekki að skattleggja umferð þar sérstaklega.

Ég held að þetta eigi bara að vera sanngirnismál Íslendinga um allt land og allra sem fara um þjóðvegi landsins að nota ekki sértæka skattheimtu eins og nú er (Forseti hringir.) í Hvalfjarðargöngum.