135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[18:13]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að Framsóknarflokkurinn hafi komið með yfirlýsingar um að hann styðji afnám gangagjaldsins og harma að hann skuli ekki hafa beitt sér fyrir því fyrr, á meðan hann hafði tækifæri til þess í ríkisstjórn. Eftir sem áður fagna ég þeirri stefnubreytingu.

Varðandi afstöðu Sjálfstæðisflokksins er eðlilegt að sjálfstæðismenn svari fyrir sig sjálfir. Það kom fram fyrr í umræðunni að menn eru hræddir um að afnám Hvalfjarðargangagjalds væri yfirlýsing um að slíkri gjaldtöku verði ekki beitt. Ég tel það mistúlkun og enga ástæðu til að óttast það. Það getur vel komið til greina við einstaka framkvæmdir en verður að meta hverju sinni.

Hugmyndir hafa verið um að við Vaðlaheiðargöng verði tekið upp gangagjald. Þó að ég sé ekki sérstaklega hlynntur því og telji eðlilegt að þau verði gjaldfrjáls þá var þar hugmynd um að ríkið greiddi einhvern hluta af framkvæmdinni en veggjaldið annan hluta. Því má í sjálfu sér líkja við það sem verið er að tala um hér. Það er búið að borga gangagjald í tíu ár áður en það yrði fellt niður.

Varðandi Samfylkinguna þá hefur hún ekki tekið flokkslega afstöðu gegn eða með gangagjaldi. Það er til skoðunar innan þingflokksins og verður að sjálfsögðu skoðað með samstarfsflokknum hvernig haga eigi gjaldtöku og fjármagna vegaframkvæmdir yfirleitt. Það er ástæðan fyrir því að ég hef ekki flutt sérstakt mál um þetta. Ég tel eðlilegt að unnið verði að því innan stjórnarmeirihlutans og skoðað hvernig eigi að standa að þessu. Ég treysti á að það verði gert samhliða vinnu við samgönguáætlun.

Varðandi það hvort þetta er skattur eða ekki þá tel ég að þetta sé skattur, já, a.m.k. íþyngjandi gjald fyrir svæðið sem takmarki ávinninginn af Hvalfjarðargöngum miðað við ef þau væru gjaldfrjáls. Það væri mikið byggðamál fyrir Norðvesturkjördæmið og raunar alveg norður úr ef gjaldið yrði fellt niður.