135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[18:17]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætar umræður um þetta mál, um niðurfellingu veggjalds um Hvalfjarðargöng. Ég vil leggja áherslu á að að mínu viti á ekki að útiloka að farið sé út í einstaka framkvæmd með gjaldtöku eins og staðið var að varðandi Hvalfjarðargöngin á sínum tíma. Það byggðist á sérlögum þar sem kveðið var nákvæmlega á um hvernig skyldi staðið að, hver kæmi að, hvernig skyldi staðið að byggingu og rekstri og svo framvegis og að göngin síðan rynnu til íslenska ríkisins. Það byggðist á sérlögum.

Það sem ég nú óttast eru ákvæði í núgildandi vegalögum um heimildir til að fara í einkaframkvæmdir og selja út einstaka vegaframkvæmdir til gjaldtöku á almennum grunni. Sú stefna sem þar var kynnt, þ.e. ef henni verður beitt þá erum við í miklu alvarlegri málum. Í þá veruna hefur umræðan gengið hér að minnsta kosti frá ýmsum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar hafa menn nefnt gjaldtöku um Vaðlaheiðargöng, gjaldtöku um Sundabraut, gjaldtöku um veginn um Hellisheiði og svo framvegis auk áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Sú nálgun hugnast mér náttúrlega engan veginn. Ég vara við þeirri nálgun sem boðið er upp á, að taka gjald af hinum ýmsu leiðum í þjóðvegakerfinu.

Í lokin skal bara áréttað að þó hér sé gengið nokkuð hart á hv. 2. þm. Norðvesturkjördæmis Guðbjart Hannesson varðandi þetta mál þá eru jú ályktanir frá öðrum flokksfélögum. Ég minni á ályktanir frá félögum vinstri grænna bæði á Akranesi og í Borgarbyggð þar sem lögð er mikil áhersla á að þessu gangagjaldi verði aflétt einmitt í jafnræðisskyni.

Ég lít svo á að Samfylkingin í sjálfu sér, þegar hún keyrði upp með þetta mál sem eitt af sínum stóru kosningamálum fyrir alþingiskosningarnar síðastliðið vor — þ.e. þá hafi það verið gert með því að eiga bakstuðning flokksins hvað það varðaði. Ég treysti því á að það séu ekki bara þingflokkar og þingmenn í stjórnarandstöðunni sem vilji keyra þetta mál til enda heldur standi einmitt líka þingflokkur hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að því. Þetta er bæði prinsippmál og þetta er kostnaðarmál og þetta er líka sálrænt mál fyrir íbúa á þessu svæði sem þurfa daglega að fara um Hvalfjarðargöng vinnu eða búsetu eða náms síns vegna.

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu hér og treysti því að þetta mál fái hraða og góða umfjöllun. Þar sem þetta lýtur að gerð og framkvæmd í vegáætlunum þá legg ég til að málið fari til hv. samgöngunefndar að lokinni umræðu hér.