135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

brottfall heimildar til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

189. mál
[18:22]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall heimildar til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Frumvarpið var lagt fram hér í upphafi þings eða mjög snemma í haust áður en fjárlög fyrir árið 2008 voru afgreidd og reyndar líka áður en fjáraukalög fyrir árið 2007 voru afgreidd. Frumvarpið komst ekki á dagskrá áður en þau lög fengu lokaafgreiðslu á Alþingi fyrir jól og kemur fyrst nú á dagskrá. Ég hef því lagt til og óskað eftir því að frumvarpið verði prentað upp og 1. gr. breytt þannig að hún hljóði á þennan veg, með leyfi forseta:

„Í 6. gr. fjárlaga 2008 verði felldur út liðurinn 5.1: „Að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.““

Og 2. gr. hljóðar þá svo, með leyfi forseta: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Á fjárlögum ársins 2006 og 2007 voru heimildir til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og heimild til sölu ríkissjóðs á Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Í maí síðastliðnum nýtti fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sér heimild til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja. Markmið ríkisstjórnarinnar með sölunni var að setja í gang ferli til að koma orkuveitum og orkulindum úr eigu opinberra aðila í hendur einkaaðila á frjálsum markaði.

Komu þau áform ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks m.a. skýrt fram í útboðsskilmálum, með leyfi forseta:

„Íslensk orkufyrirtæki, félög sem stunda starfsemi sem fellur undir raforkulög í opinberri eigu mega ekki bjóða í eignarhlut ríkisins. Sama gildir um dótturfélög framangreindra fyrirtækja og önnur félög þar sem þau fara með yfirráð í skilningi samkeppnislaga.“

Þegar þessi 15% hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var boðinn til sölu á síðastliðnu vori voru opinberar orkuveitur hindraðar í að bjóða í hlutinn.

Þótt ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi tekið við áður en salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja fór fram var söluferlið ekki stöðvað þrátt fyrir háværar kröfur þar um. Salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkafyrirtækis hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna og orkulinda úr samfélagseigu sem ekki sér fyrir endann á. Nægir að nefna framvindu mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur, einkavæðingu, sölu og afhendingu samfélagseigna til útvalinna einkaaðila.

Það mál er enn til umfjöllunar og nú síðast í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var verið fjalla um svokallað REI-mál sem er angi af þessum gjörningi ríkisstjórnarinnar á síðastliðnu vori þegar hún seldi hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og hleypti orkumálunum þar með í uppnám.

Þegar þessi greinargerð var skrifuð hafði meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík sprungið út af því máli og nýr meiri hluti með aðild Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Samfylkingar hafði tekið við. Þegar málið er svo flutt hér á þingi er sá meiri hluti sprunginn og komin borgarstjórn Sjálfstæðisflokks og efsta manns á F-lista.

Áfram er þetta kveikjan að því mikla umróti sem hefur orðið í borgarstjórnarpólitíkinni og mun teygja sig með fullum þunga inn á Alþingi í umræðunni um væntanleg orkulög.

Æ fleiri stuðningsmönnum einkavæðingar á sölu almenningsveitna og orkulinda landsmanna hefur snúist hugur og vill leggjast á sveif með okkur í Vinstri grænum um þjóðareign á náttúruauðlindunum. Forustugrein Morgunblaðsins, fimmtudaginn 1. nóvember sl., fjallaði t.d. um einkavæðingu, sölu og brask sem átt hefur sér stað með Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Rótina að sinnaskiptunum má að hluta til rekja til einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og sölu hennar á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Í forustugreininni eru kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnum og á Alþingi og ráðherrar gagnrýndir fyrir blinda einkavæðingu og veruleikafirringu og að þeim hafi verið „ótrúlega mislagðar hendur“ , orðrétt tilvitnun í leiðarann. Fylgir leiðarinn með sem fylgiskjal frumvarpsins.

Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja er brýnt að fella nú þegar á brott úr lögum sams konar heimild til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar enda væri þessi söluheimild ekki á fjárlögum ef stjórnvöld ætluðu sér ekki að nýta hana.

Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka saman Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og á ríkið liðlega 20% hlut í hitaveitunni. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver. Það þótti svo brýnt hagsmunamál á sínum tíma að ríkið ætti vatnsréttindi þar að Alþingi veitti ríkisstjórninni, með sérstökum lögum frá 1978, heimild til að taka eignarnámi landspildu úr landi Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum, þar á meðal Deildartunguhver. Ríkissjóður lagði þessi jarðhitaréttindi síðan inn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Söluheimild ríkissjóðs á Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar nær því bæði til hlutar ríkisins í hitaveitunni sjálfri ásamt ofangreindum jarðhitaréttindum.

Deildartunguhver er álitinn vera einhver vatnsmesti hver jarðar ef ekki sá vatnsmesti. Úr honum koma 180 lítrar af 98° heitu vatni á sekúndu upp á yfirborðið en það eru alls 40% af öllu heitu vatni sem kemur upp á yfirborðið í Borgarfirði. Vatninu úr hvernum er veitt til Akraness, sem er í 64 km fjarlægð, og Borgarness, sem er í 34 km fjarlægð, en einnig til nokkurra bæja á leiðinni. Hverinn er friðaður og gildi hans fyrir ferðamannaiðnaðinn á Vesturlandi er mikið. Við hverinn vex einnig friðað afbrigði af burknanum skollakamba sem vex aðeins á einum öðrum stað á landinu.

Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar var stofnuð 1979 af Akraneskaupstað og Hitaveitu Borgarfjarðar en að henni stóðu Borgarneshreppur, Andakílshreppur og Bændaskólinn á Hvanneyri. Hitaveitan fær vatn úr Deildartunguhver og borholum í Bæjarsveit, við Laugarholt og Bæ. Árið 2001 sameinaðist Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar Orkuveitu Reykjavíkur og tók nýtt sameinað fyrirtæki til starfa 1. desember það ár. Við það gekk hlutur Akurnesinga og Borgfirðinga í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar inn í Orkuveitu Reykjavíkur en hlutur ríkisins er enn sem áður liðlega 20% og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar er rekin sem sjálfstætt fyrirtæki.

Félög Vinstri grænna á Akranesi og í Borgarbyggð hafa ályktað gegn einkavæðingu og sölu opinberra orkuveitna og krafist þess að heimild til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar verði tafarlaust afturkölluð. Með vísan til örlaga hluta ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja er mjög brýnt að afnema nú þegar heimild á fjárlögum til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Herra forseti. Með greinargerðinni fylgja svo fylgiskjöl eins og ég gat um áðan. Fylgiskjal I er ályktun frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í Borgarbyggð, þar sem skorað er á Alþingi að afturkalla heimild til að selja Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar frá 11. október 2007. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Borgarbyggð, haldinn í Borgarnesi 10. október 2007, skorar á Alþingi að fella nú þegar úr gildi heimild í fjárlögum til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Atburðarás undanfarinna daga hefur leitt í ljós að sala ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja voru mistök.

Það er Borgfirðingum afar mikilvægt að ráða þeim náttúruauðlindum sem gera Borgarfjörð jafnfýsilegan búsetukost og raun ber vitni en Deildartunguhver og önnur hitaréttindi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar í Borgarfirði verði ekki leiksoppar markaðsaflanna líkt og gerst hefur á Suðurnesjum.“

Einnig fylgir bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í bæjarstjórn Akraness en þar segir, herra forseti:

„Fulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Akraness lagði fram svohljóðandi bókun á fundi bæjarstjórnar 10. október: Við horfum í dag fram á það að Hitaveita Suðurnesja verði á næstu dögum einkavædd, það er, að hluti Orkuveitu Reykjavíkur verði seldur inn í REI. Nú er Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sem á 79,3% í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar á móti 20,7% hluta ríkisins. Í tillögu að fjárlögum næsta árs er að auki gert ráð fyrir að ríkið selji sinn hlut. Það sem hóf þetta ferli allt, sem við nú stöndum frammi fyrir, er sala ríkisins á 15% hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Það hlýtur því að vera hagur Akurnesinga að ekki verði af hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar og komið verði í veg fyrir að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar fari sömu leið og Hitaveita Suðurnesja. Ég skora á bæjarstjórn og fulltrúa Akraneskaupstaðar í stjórn Orkuveitunnar að leggjast gegn markaðsvæðingu Orkuveitu Reykjavíkur og standa þar með vörð um hagsmuni bæjarbúa.

Svo segir í bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í bæjarstjórn Akraness 10. október sl.

Fleiri bókanir fylgja. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bókaði 29. júní 2007 og krafðist þess að ríkið félli frá sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Einnig er vitnað í leiðara Morgunblaðsins, sem ég nefndi áðan, þar sem vikið er að undirskriftasöfnun á Suðurnesjum gegn einkavæðingu og sölu á Hitaveitu Suðurnesja þar sem krafan var um að orkuauðlindirnar og veiturnar væru í almenningseign. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru snupraðir fyrir að ganga þeirra erinda sem hafin var undirskriftasöfnun gegn.

Herra forseti. Staðan er áfram sú, eins og hér hefur komið fram, að á fjárlögum fyrir árið 2008 er inni heimild fyrir ríkissjóð til þess að selja hlut sinn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Sú heimild er nú í höndum fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Eins og ég sagði áðan, með vísan til þess hvernig fór með hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, sem hliðstætt ákvæði var um, þá er engin trygging fyrir því að hann verði ekki settur í sölu og reyndar er frekar að búast við því að hann verði settur á sölu því annars væri hann ekki inni í fjárlögum. Þau áform að hafa hann til sölu eru jú alveg augljós.

Ég held að við fæst — ég veit alla vega að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum því algjörlega andvíg að hlutur ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, ásamt hlut í Deildartunguhver, fari sömu leið og í sama ferli og hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Því leggjum við til að þessi heimild verði felld brott úr fjárlögunum og þar með verði tryggt að hlutur ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, ásamt Deildartunguhver, fari ekki bara si svona á sölu eins og gerðist með Hitaveitu Suðurnesja.