135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

brottfall heimildar til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

189. mál
[18:36]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Bara örstutt vegna þessa máls og ræðu hv. þingmanns sem ræðir hér um sölu ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að fara ber með þetta af varúð, ekki síst í ljósi þess sem gerðist með Hitaveitu Suðurnesja. Ég hef sjálfur lýst því yfir að það var kannski ekki meining Framsóknarflokksins að mál þróuðust eins og þau gerðu við þá sölu. Ég er ekki viss um að neinn hafi séð það fyrir, kannski ekki Sjálfstæðisflokkurinn heldur — ég veit aldrei hvað hann hugsar í sjálfu sér, ég þekki ekki allar þær hugsanir sem sá flokkur býr yfir.

En ég held að það hafi verið skýr meining af okkar hálfu að Alþingi hafði lengi gefið heimild til að selja hlut sinn, sem var 15%, í Hitaveitu Suðurnesja, það hafði verið hér á dagskrá í mörg ár. Eftir á að hyggja hef ég sagt að þetta væru þessi miklu orkufyrirtæki, hitaveiturnar og síðan rafmagnsfyrirtækin, Landsvirkjun og Rarik, þetta var allt til umræðu. Við minnumst þess að einkavæðingaráráttan var nú ekki meiri en svo að þegar Reykjavík og Akureyri seldu hlut sinn í Landsvirkjun settust menn að borði og sömdu um að ríkið yfirtæki þá hluti af sveitarfélögunum. Það var samkomulagsmat og Landsvirkjun síðan alfarið í eigu ríkisins, sem ég fagna. Í mínum huga á hún að vera það.

En hvað gerðist síðan á Suðurnesjum, þar sem þetta var skilyrt með þessum hætti, og sjálfsagt snúið að því að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur kæmu ekki inn í það mál. En ég held að menn hafi sannarlega búist við því að sveitarfélögin mundu alla vega nýta forkaupsrétt og ráða við að kaupa þennan hlut ríkisins, og kannski ná því að vera með hæsta tilboðið.

Þarna gerðust hlutir sem ég sá ekki fyrir og ekki minn flokkur. Þarna varð til mikið fyrirtæki, Geysir Green, sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni, sem kom með yfirtilboð og náði þessum hlut ríkisins. Sveitarfélögin hafa áreiðanlega ekki treyst sér til þess að nýta forkaupsréttinn. Því fór þetta mál á þann veg að sveitarfélögin sáu aftur á móti gull og græna skóga í því að selja hlut sinn, mörg hver, í Hitaveitu Suðurnesja. Það gerðu mjög mörg sveitarfélög á Suðurlandi. Sú er nú eiginlega sagan á bak við það.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi fyrirtæki eigi að vera undir yfirráðum sveitarfélaganna. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun sem þarna varð og bíð eftir að sjá hver viðbrögð hæstv. iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, verða í því frumvarpi sem enn er lokað af í afkimum stjórnarflokkanna. Mér skilst að það standi í hálsinum á sjálfstæðismönnum og sé þeim mjög erfitt. Þó var því lofað hér að það færi að koma til þingsins hvað liði. Þá verðum við auðvitað að sjá hvað þar er.

Nú skal ég ekkert segja um hvort fella á þessa heimild í burtu eða setjast niður með aðilunum sem eiga þennan hlut ríkisins, eða þeim sem mundu vilja kaupa, sveitarfélögunum á Vesturlandi, og ganga til samninga við þau um að þau yfirtaki þennan hlut. Það gæti auðvitað alveg eins verið sú leið. Það þarf að fara mjög faglega yfir þessi mál miðað við hvernig þetta þróaðist með Hitaveitu Suðurnesja, sem fór, eins og ég rakti hér, allt öðruvísi en allir bjuggust við.

Ég bíð eftir frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra og við förum yfir það. Það er sjálfsagt mál að fara yfir þetta og fá umsagnir um það og skoða þessa stöðu. Ég álít að ríkið eigi ekki selja þennan hlut nú á markaði, heldur miklu frekar að leita samninga eins og gert var þegar hlutur Landsvirkjunar var keyptur af stóru sveitarfélögunum, Reykjavík og Akureyri.

Ég vildi koma þessari skoðun minni hér á framfæri um leið og ég hrindi því tali hv. þingmanns að Framsóknarflokkurinn sé sjúkur af einkavæðingarhugsjón, það er hann ekki. Hann álítur að einstaklingarnir standi sig vel og fyrirtækin séu vel komin í höndum þeirra og einkarekstur sé mjög mikilvægur og bestur. En við virðum samvinnurekstur og teljum að opinber rekstur á ýmsum sviðum sé mjög mikilvægur við núverandi aðstæður, eins og að ríkisvaldið reki Landsvirkjun og ég hefði sannarlega viljað sjá að orkuveiturnar væru allar í höndum sveitarfélaganna.

Í mínum huga er þetta því töluvert áhyggjuefni og ég bið hæstv. ríkisstjórn að fara varlega í þessu efni. Við munum í nefndinni í þinginu skoða þetta mál og ræða við heimamenn sem ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi.