135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

brottfall heimildar til sölu á hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

189. mál
[18:43]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu hvort stroka eigi út 6. gr. heimild úr fjárlögum 2008 um að ríkið geti selt hlut sinn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ég greiddi fjárlögunum og þessum lið atkvæði við afgreiðslu fjárlaga nú rétt fyrir jólin og studdi þetta ákvæði og taldi ekki vera neina hættu á ferð, þarna er um að ræða um 20% hlut, og byggði ég það á því að í umræðunni þar á undan — í fyrsta lagi er þetta nú þriðja árið í heimildum, í öðru lagi hafði eftir sölu á hlutnum í Hitaveitu Suðurnesja orðið umræða um að nú yrði tekið til hendinni og reynt að ganga frá því með skýrum hætti að orkuauðlindir í landinu sem nú þegar eru í eigu opinberra aðila yrðu það áfram.

Það hefur komið fram að fyrir liggur orkufrumvarp í þessa veru án þess að það hafi verið upplýst hér í þinginu með hvaða hætti það er orðað. Ekki er verið að aflétta neinum trúnaði með því að segja að þetta hafi verið eitt af því sem kemur þar fram. Ég treysti á að það verði með þeim hætti að eignin, verði hún seld, verði seld til sveitarfélaganna eða þá til Orkuveitu Reykjavíkur sem á 80% hlut í hitaveitunni og hefur farið þar ágætlega með stjórn mála.

Í sjálfu sér væri tilefni út af þessari tillögu og umræðum um Hitaveituna að ræða ferlið allt frá upphafi. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar er nú stofnuð á sínum tíma með myndarlegu framtaki sveitarfélaganna á Vesturlandi. Þrátt fyrir að það væri afar hagkvæm framkvæmd að því leytinu til að þar var verið að nýta náttúruauðlindir í staðinn fyrir olíu til upphitunar húsa á þessu svæði var það nú þannig á þeim tíma að menn urðu að gjöra svo vel og borga framkvæmdina að fullu og öllu og borguðu þar að auki söluskatt ofan á allt saman á sama tíma og stóriðjan sem var byggð á Grundartanga með undanþágum frá söluskatti.

Þetta olli okkur á Vesturlandi miklum vandræðum lengi vel vegna þess að þetta var með dýrustu hitaveitum landsins og endaði með því að samkomulag náðist um að selja hitaveituna til að reyna að bjarga henni út úr skuldum. Síðan tókst Akurnesingum og Borgfirðingum að ná samkomulagi um að sameinast Orkuveitu Reykjavíkur sem var gríðarlega mikilvægt og ánægjulegt skref. Það hefur þýtt að menn hafa haft miklu meira rekstraröryggi og miklu meiri styrk til þess að taka á málum varðandi uppbyggingu veitumannvirkja á þessu svæði.

Ég treysti Orkuveitunni mjög vel til að taka við þessum hlut ef það kemur til. Hann er þá áfram í eigu opinberra aðila og treysti ég því að ríkið muni ekki fara með þetta á einhvern almennan markað í framhaldi af því að þessi heimild er þriðja árið í röð í fjárlögum.