135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum.

[15:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé mig enn knúinn til að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um stöðu Evrópumála hjá hæstv. ríkisstjórn og nú af tilefni Noregsferðar varaformanns utanríkismálanefndar, þingmanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar.

Samkvæmt viðtali við þingmanninn var erindi hans til Noregs m.a. það sem endurspeglast í eftirfarandi orðum sem eftir honum voru höfð í útvarpsviðtali, með leyfi forseta:

„Við erum auðvitað að ræða um það,“ segir þingmaðurinn, „hvernig við getum leyst mjög brýnan og alvarlegan vanda sem er sá vandi að gjaldmiðillinn hentar ekki þörfum landsins lengur og veldur heimilum og fyrirtækjum gríðarlegum búsifjum. Þegar við erum að ræða lausnir á þeim vanda er alveg ljóst að evran er sú lausn sem menn binda mestar vonir við. Það er líka ljóst að helstu stjórnmálaforingjar á Íslandi eru sammála um að evran verður ekki tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu. Sama segir Seðlabankinn. Við þær aðstæður hlýtur umræða um lausn á þessum brýna vanda“ — aftur er talað um brýnan vanda — „alltaf að snerta aðild að Evrópusambandinu og það er óhjákvæmilegt.“

Hér talar, að við skulum ætla, einn af áhrifamönnum í stjórnarherbúðunum á sviði utanríkismála, varaformaður utanríkismálanefndar, og er nú svo komið að þessi málflutningur Samfylkingarinnar er ekki lengur bara til heimabrúks, hann er orðinn útflutningsvara. Höfum þá í huga ummæli formanns utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssonar, sem lét hafa það eftir sér á dögunum að þessi málflutningur væri farinn að skapa vanda, valda misskilningi og skapa óróleika um stöðu þessara mála á Íslandi. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Á þetta að halda svona áfram? Hyggst hæstv. forsætisráðherra hafa þetta þannig áfram að talað sé út og suður með þeim hætti að það skapar óróleika og óvissu um stöðu þessara mála á Íslandi?