135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum.

[15:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það virðist eiga að vera óbreytt ástand í þessum efnum, því miður. Hæstv. forsætisráðherra reynir ekki að taka af skarið með neinum myndarskap. Er það ekki umhugsunarefni þegar forustumenn úr stjórnarliðinu tala með þessum hætti í Noregi og reyna að koma því að þar, skapa það andrúmsloft þar, að á Íslandi sé allt á fullri ferð inn í Evrópusambandið? Það er augljóslega það sem verið er að gera þegar talað er um brýn vandamál og að eina lausnin sem menn sjái sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Ég get ekki séð að það sé til góðs á nokkurn hátt að umræða af þessu tagi fari fram undir þessum formerkjum og það á ekkert skylt við það að menn séu frjálsir skoðana sinna og geti tjáð sig sem slíkir. En verið er að tala um stöðu mála á Íslandi og verið er að tala eins og að þetta sé staðan og um það séu allir (Forseti hringir.) sammála að eina lausnin sé innganga í Evrópusambandið og upptaka evru þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra segir engu að síður að sé stefna ríkisstjórnarinnar.