135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kynning á stöðu þjóðarbúsins.

[15:11]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er vel boðið þykir mér. En ég treysti því að hv. þingmaður og flokkur hans eins og allir aðrir flokkar á Alþingi taki höndum saman um að vinna að því þjóðþrifamáli sem hv. þingmaður var að lýsa varðandi það að útrýma ranghugmyndum um íslenskt efnahagslíf í nálægum löndum og í viðskiptalöndum okkar um allan heim. Það er góð hugmynd og hún hefur verið til athugunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar um skeið. Ég tók sjálfur þátt í því átaki sem hv. þingmaður nefndi á árinu 2006 og það gerðu ýmsir fleiri og það skilaði ágætum árangri.

Ekki þótti mér þingmaðurinn daufgerður þegar hann lýsti því hvernig staða ríkissjóðs er um þessar mundir eða staða lífeyrissjóðakerfisins. Það er alveg rétt og á það benti Moody's í síðasta áliti sínu, sem hér var til umræðu um daginn, að það eru þessir þættir ásamt fleiri atriðum sem gera það að verkum að íslenska ríkið hefur, og íslenska þjóðarbúið, mikla sérstöðu miðað við ýmsa aðra sem eru skuldum vafnir upp fyrir haus þegar kemur að stöðu opinberra fjármála og eru með lífeyrissjóðakerfið sitt á hausnum. Það er ekki sú mynd sem er uppi á Íslandi um þessar mundir. En hugmynd þingmanns er vel meint, ég tek henni vel og við munum síðan vinna úr þessu máli. Þetta er ekki ný hugmynd, hún hefur verið rædd við forsvarsmenn í viðskiptalífinu og við sjáum svo hvað setur með þetta atriði.