135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kynning á stöðu þjóðarbúsins.

[15:12]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég sá að það glaðnaði yfir hæstv. forsætisráðherra, ég sá gamalkunnugt bros taka sig upp og fagna ég því. Auðvitað þarf ríkisstjórnin á hjálp að halda og ég býð það af heiðarleika að við viljum Íslandi vel og það er mikilvægt að fara í þessa vinnu. Bankakerfið sjálft fór í álíka vinnu 2006 með Bjarna Ármannsson í broddi fylkingar að kynna stöðu hinna sterku banka. (Forsrh.: Hann er á lausu.)

Nú er í sjálfu sér mikilvægt að ríkisstjórnin og Seðlabankinn — þetta má ekki vera hugmynd sem liggur undir koddanum hjá hæstv. forsætisráðherra. Ef honum líst vel á hugmyndina þá vil ég að hann svari því strax hvort hann ætlar í slíka ferð til að berjast fyrir íslensku atvinnulífi og snertilendingu, að takast á við það í umheiminum og segja frá hinni sterku stöðu þjóðarbúsins sem er fyrir hendi þó að við tökumst eins og margar aðrar þjóðir á við ákveðna erfiðleika. Því að sannleikurinn er sá að illa er talað um Ísland í viðskiptalöndum okkar því miður og það ber að leiðrétta. (Forseti hringir.) Ég vil fá algerlega skýr svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Ætlar hann ásamt Seðlabankanum í þennan leiðangur eða ekki?