135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.

[15:14]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til að ganga frekar eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildar að Evrópusambandinu og upptöku evru en þegar hefur verið gert. Ég minni á að hæstv. viðskiptaráðherra, sem talar auðvitað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í sínum málaflokki, hefur sagt opinberlega að hann telji aðild Íslands að Evrópusambandinu langheppilegasta skrefið sem Ísland gæti tekið í framtíðarsamskiptum sínum við Evrópu og upptaka evrunnar yrði meginkosturinn við slíka aðild. Hann hefur enn fremur lýst þeirri stöðu sem við erum í á þann veg að almenningur, einyrkjar og smáfyrirtæki blæði fyrir veikleika krónunnar miðað við núverandi ástand og hefur metið kostnað almennings, smáfyrirtækja og einyrkja upp á 72 milljarða á hverju ári.

Það er alvarlegt mál þegar viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar segir að það kosti almenning á Íslandi og atvinnufyrirtæki 72 milljarða kr. á hverju ári í viðbótarkostnað sem menn gætu verið án ef þeir tækju upp evruna. Ríkisstjórnin verður auðvitað að svara því mjög skýrt hvort hún ætli að leggja þessar byrðar á almenning á komandi árum meðan hún er við völd eða að bregðast við áliti viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar.

Ég minni á það sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. menntamálaráðherra, lét getið í blaðaviðtali í júlí á síðasta ári en ráðherrann sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar mikill misskilningur að við sjálfstæðismenn viljum útiloka ESB-aðild um aldur og ævi. Auðvitað munum við meta hvernig hagsmunum okkar er best borgið.“

Nú er spurningin: Hvað ætlar ríkisstjórnin að segja í þessu máli? Eru það viðskiptaráðherra og menntamálaráðherra sem tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar eða er það hæstv. forsætisráðherra?