135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

loftslagsmál.

[15:26]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að Ísland eigi ekki að sækjast eftir undanþágum á vettvangi Kyoto-bókunarinnar. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að við eigum að gera það en hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt pass og hefur ekki verið skýr í máli sínu. Hann segir í grein 11. desember að á þessu stigi eigi ekki að sækjast eftir því að knýja fram hið íslenska ákvæði, enda sé ferill samninganna á Balí ekki á því stigi að þar sé verið að ræða einstök áherslumál ríkja.

Staðan er hins vegar allt önnur í dag. Samtök atvinnulífsins héldu fund á föstudaginn og þar kom fram að samtökin styðja það að íslenska ákvæðinu verði viðhaldið eða að minnsta kosti innihaldi þess, þó að orðalagið gæti orðið öðruvísi. Ég er afar sammála Samtökum atvinnulífsins. Það er mjög brýnt að íslenska ákvæðið eða innihald þess skili sér í næsta samningi og sá samningur verður frágenginn í Kaupmannahöfn árið 2009. Samningsferlið er að hefjast í þarnæsta mánuði en 22. febrúar nk. hafa ríkin möguleika á að leggja inn áherslumál til samningsins, og 22. febrúar er eftir 10 daga, virðulegi forseti.

Á sínum tíma lagði Ísland fram áherslur sínar við sams konar tækifæri, árið 1995 að mig minnir, og það hafði mikið að segja. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað er nefndin sem er að undirbúa samningsmarkmið okkar að gera? Ætlar hún að senda inn áherslumál okkar til samningsins fyrir 22. febrúar? Hvenær fáum við að sjá samningsumboð Íslands?

Samtök atvinnulífsins hafa ekki hugmynd um hvert samningsumboðið á að vera. Það þýðir ekki lengur að bíða, af því að samningsferlið er að fara í gang. Hvar er þetta mál statt, virðulegi forseti?