135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:06]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Ég get að flestu leyti tekið undir þau sjónarmið og það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi það hvernig hér er staðið að málum.

Þetta vekur upp ýmsar spurningar og fleiri en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á en það varðar undirbúning og möguleika þingmanna til að fylgjast með og hafa afskipti af málum eins og þessum á vinnslustigi. Ég reikna með því að þetta mál hafi verið til umræðu hjá Evrópusambandinu á árunum 2003–2004. Hér er um að ræða reglur sem samþykktar eru árið 2005. Í raun hefðu þingmenn því þurft að hafa þessa hluti á borðum sínum og viðskiptanefnd Alþingis hefði þurft að fjalla um málið á þeim tíma til þess að geta fylgst með málinu alveg frá upphafi og þegar um er að ræða reglur eins og þær sem eru óundanþægar, það verður að samþykkja þær eins og þær eru, þá kemur eiginlega ekki annað til greina en að löggjafinn geti fylgst með málinu allt frá upphafi. Þingmenn fái þannig upplýsingar um umræður og hvernig nefndirnar hjá Evrópusambandinu vinna, hvaða athugasemdir og atriði eru þar að koma til skoðunar.

Af því að hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon talaði um vinnumálasamþykktir, atriði sem snerta launþega, þá reikna ég með því að Alþýðusamband Íslands og þeir sem þar sitja í stjórn séu upplýstari um þau mál sem eru til umfjöllunar á þeim vettvangi en þingmenn á þjóðþingi Íslendinga.

Það kom nú reyndar fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um Evrópumálin vilji til þess að gera hér bragarbót á, að þingmenn fengju auknar upplýsingar fyrr. En frumvarp eins og þetta, tilskipun eins og þessi, sýnir fram á brýna nauðsyn þess að alþingismenn, að löggjafarvaldið á Íslandi komi að málum strax á vinnslustigi í upphafi en standi ekki meira og minna frammi fyrir orðnum hlut hvað svo sem líður þeim fyrirvara sem hæstv. viðskiptaráðherra benti réttilega á að væri í gildi. Þá er það nú einu sinni þannig að hér er um að ræða tilskipun sem okkur ber að innleiða og það getur varðað okkur ákveðnum viðurlögum ef við gerum ekki.

Hins vegar verður það að segjast eins og er að sem betur fer hafa reglur, tilskipanir í Evrópuréttinum, gengið lengra til að vernda rétt neytenda en íslenski löggjafinn hefur viljað setja hvað það mál varðar. Þegar við gengum á sínum tíma í Evrópska efnahagssambandið þá þurfti að gera verulegar breytingar á íslenskum lögum til hagsbóta fyrir íslenska neytendur. Enn sem komið er það því þannig að Evrópusambandið hefur hvað varðar hagsmuni neytenda, ef eitthvað er gengið lengra og gengur lengra til verndar hagsmunum neytenda og fjallað um hagsmunamál þeirra en íslenski löggjafinn hefur haft frumkvæði að eða vilja til þess að lögfesta. Meðan svo er þá er það hvað varðar hagsmuni neytenda af hinu góða.

Hitt er svo annað mál að það má alveg taka efnislega undir öll þau sjónarmið sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á varðandi stöðu löggjafarþingsins og varðandi sjálfstætt löggjafarstarf á þjóðþinginu. Til þess að stytta mál mitt geri ég þau sjónarmið og þau orð sem hann lét hér falla að mínum hvað það varðar.

Síðan eru önnur atriði sem koma ekki fram í þessum atriðum varðandi ólögmæta viðskiptahætti sem vantar sárlega inn í og ég fæ ekki betur séð en að við getum sett inn í lögin um óréttmæta viðskiptahætti, óháð því regluverki sem hér er um að ræða. Það er t.d. eftirtektarvert að hér eru nokkur ítarlega ákvæði um auglýsingar og um það fjallað hvað má og hvað ekki. En það er ákveðin tegund af auglýsingum sem eru algjörlega undanskildar og ekkert fjallað um í þessum lögum en spurning hvort ekki þurfi að setja sérstök ákvæði um. Það er fyrirbrigði sem heitir kostun. Hvað varðar kostun þá virðast ekki gilda þau ákvæði sem almennt gilda um auglýsingar og kostun er almennt ekki í íslenskum lögum eða um hana fjallað nema í lögum um Ríkisútvarpið.

Það eina sem gæti komið til í því regluverki sem hér er um að ræða, sem gæti fallið undir og tekið til ákvæða varðandi kostun, er j-liður 2. gr., sem verður 14. gr. laganna, þar sem segir: Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar gagnvart keppinautum, o.s.frv. Að öðru leyti er ekkert fjallað um eða vikið að þessari stöðugt mikilvægari aðferðafræði þeirra sem eru að koma vörum og þjónustu á framfæri, að kosta þætti, útsendingar, heilu þáttaraðirnar og eingöngu koma að vörumerkinu og/eða einfaldri auglýsingu, oft mjög villandi og jafnvel röngum. Þannig eru dæmi til þess að á hverju kvöldi er ákveðnar fullyrðingar hjá kostunaraðila sem standast ekki það sem um er að ræða án þess að athugasemdir séu gerðar við það að öðru leyti.

En við höfum ekki þessar reglur og því get ég ekki betur séð en að það megi koma ákvæðum inn í þessa reglugerð þrátt fyrir að hér sé um regluverk að ræða sem kveður á um með hvaða hætti við skulum lögfesta þær reglur, það er ekkert sem bannar okkur að setja ákvæði um kostun eða ákveðnar reglur um það að kostun skuli lúta sömu skilyrðum og sömu reglum og jafnvel ákveðnari en hér gilda um auglýsingar. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra að því hvort það sé ekki rétt að það sé fullkomin heimild til þess að setja ákveðnari ákvæði í lög um óréttmæta viðskiptahætti varðandi kostun og þess vegna líka atriði sem varða með hvaða hætti hlutir eru boðnir fram gagnvart börnum. Miðað við minni mitt þá eru ákvæði t.d. í sænskum lögum sem kveða á um mun ákveðnari reglur en hér eru varðandi það með hvaða hætti ekki má bjóða hluti fram gagnvart börnum og síðan er greint á milli eftir aldri barnanna o.s.frv.

Ég rak líka augun í að í Bretlandi gengu í gildi ákveðnar reglur um að banna sérstaklega auglýsingar með ákveðnum matvælum sem talin voru óholl, sérstaklega fyrir börn. Þetta er gert óháð því að Bretar hafi væntanlega innleitt þessa tilskipun löngu á undan okkur. Ef að líkum lætur erum við í röð þeirra síðustu sem innleiða tilskipanir eins og þessar.

En með innleiðingu tilskipunarinnar er ekki þar með sagt að við getum ekki sett í ákvæði lög um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins þrátt fyrir að við þurfum að innleiða þessar reglur. Við höfum möguleika á að setja aðrar reglur svo fremi sem þær fara í ekki í bága við þær sem gilda um önnur atriði.

Ég velti fyrir mér varðandi f-lið, sem verður 10. gr., hvort þar geti líka verið átt við atriði eins og kostun þar sem um er að ræða ef fyrirtæki hyggst auglýsa eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum vegna tiltekinnar vöru eða þjónustu. Ég get ekki annað séð en því megi beita eftir því sem við getur átt.

Það er að mínu viti óheppilegt þegar löggjafarvaldið framselur vald sitt í verulegum mæli til framkvæmdarvaldsins, til ráðherra. Þannig er ákvæði í d-lið 8. gr. þar sem fjallað er um að ráðherra kveður á í reglugerð um þá viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.

Við erum með ákvæði í e-lið (9. gr.) þar sem fjallað er um að hvaða viðskiptahættir séu villandi eða líklegir til að blekkja neytendur eða veita neytendum rangar upplýsingar og um það eru ákvæði í töluliðum a til g. En þegar um er að ræða viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir þá er það lagt í vald ráðherra.

Nú reikna ég með að í regluverki Evrópusambandsins liggi fyrir ákveðnar viðmiðanir í þessu efni, hvað þarna er átt við sem falla þá undir sömu forsendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að vísa í til áðan, um það með hvaða hætti við erum bundin við aðgerðir sem búið er að taka úti í Brussel.

Þetta leiðir líka hugann að því hvort það sé ekki verulega mikið hagsmunamál fyrir þær þjóðir sem eru í Evrópska efnahagssvæðinu og ætla sér að vera þar, að þær geri kröfur til þeirrar breytingar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að við höfum í öllum tilvikum alla möguleika í vinnslustigi laga eða regluverks á enda, tækifæri til þess að koma að okkar athugasemdum.

Eins og fyrir liggur núna þá höfum við eingöngu möguleika á að koma athugasemdum okkar að á fyrsta stigi málsins. Síðan höfum við ekki formlega aðkomu að málinu. En það er nú einu sinni þannig að frá því að málið fer af fyrsta stigi þá gerist mjög margt. Það eru ýmsir hagsmunaaðilar sem koma að og regluverkið tekur verulegum breytingum og þá eru þjóðirnar í Evrópska efnahagssvæðinu meira og minna sviptar þeim möguleika að geta komið að sínum athugasemdum eða breytingum. Það er verulega mikið atriði og sérstaklega ef þannig á að hátta til að það koma fleiri reglur eins og hér þar sem þjóðþingin breyta ekki að neinu leyti, þó að það sé fyrirvari varðandi lögfestingu þá gildir um þá fyrirvara líka ákvæði samnings Evrópska efnahagssvæðisins, að það getur varðað viðkomandi ríki viðurlögum ef tilskipunin er ekki innleidd. Það verður líka að hafa það í huga að við erum bundin af þeim atriðum.

Sem sjálfstæð þjóð hljótum við að gera kröfu til þess að á öllum stigum geti Alþingi, þjóðþingið, löggjafarvaldið, haft með að gera hvernig lög eða reglur eru undirbúnar eða matreiddar þannig að við getum gert athugasemdir okkar strax í upphafi og á vinnslustiginu öllu. Ekkert minna kemur til greina.

Að öðru leyti efnislega varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir þá verður að segja að þær breytingar sem hér eru lagðar til og hæstv. viðskiptaráðherra gerði grein fyrir að væru í sjálfu sér væru ekki mjög viðamiklar, þær eru almennt til bóta varðandi óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins, þannig að þau ákvæði sem hér eru, eru ef eitthvað er, til þess að auka neytendavernd og möguleikana á því að fylgjast með og athuga gagnsæi markaðarins. Þar af leiðandi, á efnislegum forsendum, lýsi ég yfir stuðningi við það að þetta frumvarp nái fram að ganga, þó að ég hafi gert þær athugasemdir sem ég hef gert, með formlegum hætti, þ.e. spurningin um það með hvaða hætti löggjafarvaldið kemur að málinu.

Ég geri líka fyrirvara og athugasemd um að það er alltaf spurning um hvað og með hvaða hætti framkvæmdarvaldinu er falið að hafa með að gera að setja inn í reglugerð mikilvæg atriði eins og um er að ræða í d-lið (8. gr.) um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir og ég reikna með því að það mál hljóti að koma til skoðunar í viðskiptanefnd sem væntanlega fær þetta frumvarp til skoðunar.