135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:21]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir glimrandi ræðu og athyglisverða eins og alltaf þegar hann tjáir sig um neytendamál enda er hann mikill kappsmaður um þau mál til langs tíma. Ég ætla að tæpa á þeim atriðum sem hann nefndi.

Hvað varðar reglugerðarheimildina um svarta listann sem er í viðauka við tilskipunina — lista yfir atriði og ólögmæta viðskiptahætti sem geta breyst og því talið hentugra að hafa í reglugerð þar sem listinn er breytilegur á móti lista yfir viðskiptahætti sem eru alltaf bannaðir og er tiltekinn sérstaklega — þá er það eina ástæðan fyrir því að ráðherra er falin sú reglugerðarheimild að listinn er talinn geta breyst og það er auðveldara að laga hann að aðstæðum.

Hvað varðar kostunina við gerð einstakra dagskrárliða í fjölmiðlum sem þingmaðurinn nefndi áðan þá er grein um það í útvarpslögum, 21. gr., þar sem útvarpsstöðvum er heimilt að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða svo framarlega sem það hafi ekki áhrif á innihald eða efnistök. Óheimilt er að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni og svo framvegis. Þar er að finna þá stoð.

Annað sem hann nefndi varðar óviðeigandi aðgengi og auglýsingar beint að börnum og unglingum sem ég tek eindregið undir. Það þarf að reisa frekari skorður við því og bæta auglýsingaverndina gagnvart börnum og unglingum þar sem að mínu mati er oft farið allt of langt í því hvort sem verið er að auglýsa óhollan mat eða vörur sem eru sérstaklega ætlaðar börnum. Þess bera að geta að ég fól þremur háskólastofnunum að gera úttekt á neytendamálum og lögum um neytendur og neytendavernd á Íslandi. Lagastofnun Háskóla Íslands hefur það á sínum verkefnalista að taka út auglýsingaumhverfi gagnvart börnum. Sú skýrsla sem og hinar tvær frá háskólastofnunum mun líta dagsins ljós í apríl og er þessum skýrslum þremur ætlað að verða fóður í mikla lagabót hér í framtíðinni á vettvangi neytendamála og neytendaverndar.