135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:37]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að bregðast hér örstutt við atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar og það lýtur að málsmeðferðinni sem hann rakti hér og því hvernig við stæðum sem þjóðþing frammi fyrir nánast gerðum hlut, hvernig við afléttum hinum stjórnskipulega fyrirvara og hvaða þýðingu hann hefur. Hann rakti það ágætlega hér að það hefði aldrei gerst fyrr að þjóðþing hefði hafnað því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, og mætti þá kannski segja að það sem aldrei hefur gerst áður getur alltaf gerst aftur. Þetta var líka sagt um það þegar forseti lýðveldisins ákvað að beita neitunarvaldi eða skrifaði ekki undir lög og nýtti þar af leiðandi heimild í stjórnarskránni, (Gripið fram í.) málskotsréttinn. Margir sögðu að hann væri ekki virkur af því að hann hefði aldrei verið notaður en annað kom á daginn, hann var nýttur engu að síður. Auðvitað getur sá dagur runnið upp að eitthvert þjóðþing ákveði að hafna því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í það hvernig hann sér fyrir sér að þingið vinni að þessum málum. Við ræddum þetta í tengslum við umræðuna um Evrópuskýrslu hæstv. utanríkisráðherra fyrir skemmstu en það er mjög mikilvægt að sérstaklega komi fram hvernig meiri hlutinn hér á Alþingi, stjórnarmeirihlutinn, vill að þessi mál beri að þinginu. Ef þau kæmu á fyrri stigum koma væntanlega líka til álita spurningar fyrir þingið eins og þessi: Heyrir viðkomandi tilskipun Evrópusambandsins yfirleitt undir EES-samninginn? Sú pólitíska spurning er yfirleitt ekki tekin af pólitískum fulltrúum á þjóðþinginu heldur af embættismönnum þegar verið er að gera samninginn? Það er auðvitað stórmál og ég vil heyra frá hv. þingmanni, (Forseti hringir.) formanni utanríkismálanefndar, hvernig hann sér að þetta eigi að ganga fyrir sig.