135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:39]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var fyrst og fremst komið inn á tvö mál. Ég vil leyfa mér að vera sammála hv. þingmanni varðandi fyrra atriðið. Auðvitað getur á það reynt að þjóðþing aflétti ekki stjórnskipulega fyrirvaranum og reyndar hefur nú í seinni tíð verið gengið býsna langt í því að tefja innleiðingu á reglum sem þjóðþingunum bar að innleiða og lengi framan af var tekist á um það með hvaða hætti þyrfti að innleiða reglur. Þetta hefur orðið til þess að legið hefur í loftinu hótun um að segja upp ákveðnum viðaukum við EES-samninginn. Sá möguleiki er því vissulega fyrir hendi að þjóðþingin hafni því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, það er í sjálfu sér alveg rétt. Einmitt vegna þess er erfitt að halda því fram að löggjafarvaldið hafi verið framselt í þessum málum. Þetta er samt framsal að einhverju marki. Við sjáum það hér, það á sérstaklega við í svona málum þar sem farið er fram á fulla samræmingu.

Varðandi það með hvaða hætti við getum haft áhrif hef ég heimildir fyrir því að kollegar okkar í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið hafi beitt sér fyrir því, í ljósi þess að hér var farið fram á fulla samræmingu, að tilskipunin yrði tónuð svolítið niður, að samnefnarinn væri hafður lægri í þessu máli en upphaflegu hugmyndirnar gengu út á. Það er þar sem við þurfum að tryggja að embættismenn okkar séu að verki. Við þurfum einfaldlega að efla samræðuna milli framkvæmdarvaldsins og þjóðþingsins til þess að við séum vel upplýst um það sem er efst á baugi hverju sinni.