135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:43]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum rætt þetta að einhverju marki undir öðrum dagskrárliðum að fyrst og fremst þurfi að efla þingið í getu sinni til þess að sinna þessum málum frekar en er í dag. Varðandi það með hvaða hætti þingið eigi að sinna þessu hlutverki sínu held ég að í grunninn mundum við hér á Alþingi ekki vilja haga okkur með mjög frábrugðnum hætti þegar borið er saman við það hvernig menn haga sér á Evrópuþinginu. Menn þurfa að leita samherja í málum, kanna það hverjir hafa sambærileg sjónarmið, hverjir hafa sambærilega hagsmuni, skoða hverjir geta átt samleið með okkur þegar kemur að því að vinna einhverjum sjónarmiðum fylgi þegar mál eru enn á mótunarstigi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að í vel flestum málaflokkum fara okkar sjónarmið saman með sjónarmiðum sem eiga fullan skilning hjá öðrum þjóðum sem hvort sem er eiga einungis aðild að EFTA eða eru inni á Evrópuþinginu.

Ég held því að það sé mikilvægt að við ræktum sambandið við Evrópuþingið miklu betur, bæði þingflokkarnir hér og við þurfum líka að skoða það með þessa kynningu hvort fastanefndirnar fara oftar út til Brussel eins og stundum hefur verið nefnt í þessu samhengi. Það eru einhver takmörk á því hversu miklum fjármunum við getum varið í að rækja þetta eftirlit en ég er þeirrar skoðunar að fastanefndirnar eigi fullt erindi til Brussel af og til til þess að fylgjast með því sem til þeirra friðar heyrir málefnalega.

Það er því fjölmargt sem við getum gert en við þurfum fyrst og fremst að verða miklu aktífari í þessum málaflokki.