135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:52]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að taka þátt í Evrópusambandsumræðu undir þessum dagskrárlið, í þessu neytendamáli. Við erum aðeins farin að fjarlægjast frumvarpið sjálft og farin að tala meira um allt það sem gerist áður en frumvarp af þessum toga ratar í þingsalinn.

Varðandi umræðuna um lýðræðishallann þá er það auðvitað eitthvað til að velta fyrir sér. Væri hann leystur með því að við ættum sex þingmenn af 750 í Brussel? Sex þingmenn af 750? Höfum við efni á að tala um þann samanburð? Höfum við efni á að tala um lýðræðishallann sem felst í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þegar við nýtum okkur ekki þau tækifæri sem samningurinn býður upp á til að gæta okkar hagsmuna? Ég er þeirrar skoðunar að við höfum alls ekki efni á slíkri umræðu, að halda því fram að fyrirkomulagið sé ómögulegt þegar við erum ekki komin hálfa leið í að nýta okkur það sem við höfum til að hafa áhrif. Menn draga lappirnar varðandi það að veita þeim málum stuðning og það tekur allt of langan tíma að ganga í tiltölulega einfalt verk, að mínu áliti. Mér finnst þetta hafa tekið allt of langan tíma. En ég fagna því hins vegar, sem ég hef heyrt frá hæstv. forseta Alþingis, að hann hyggst koma þessum málum aftur í fastan farveg fyrir lok þessa vorþings. Það eru í sjálfu sér nægilega góð tíðindi fyrir mig í bili.

En hvað getum við fleira gert? Ég tel að við getum átt öflugra samstarf við hin EFTA-ríkin sem eru með okkur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þau eru ekki mörg, þ.e. við, Norðmenn og Lichtenstein, erum með fastan fulltrúa í Brussel og fylgjumst með öllu því sem er að gerast á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, þá hlýtur að vera hægt að dýpka það samstarf, eiga skoðanaskipti og skiptast á upplýsingum, meira (Forseti hringir.) en gert er í dag.