135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[17:00]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn er að bjóða sérstaklega upp á það eða æskja þess sérstaklega að slíkt samstarf verði að veruleika hér eða annars staðar. En það var nú ekki tilefni þess að ég ákvað að koma hér með stutt andsvar við ræðu þingmannsins. Það var alls ekki til þess að andmæla honum eða neitt þess háttar enda er andsvar ekki endilega hugsað þannig heldur til þess að bregðast við.

Ég vil taka undir vangaveltur hans varðandi skipan EFTA-þingmannanefndarinnar. Það er alveg hárrétt, sem fram kemur hjá honum, að hún er þannig skipuð af fimm þingmönnum að fjórir koma úr stjórnarliðinu, eða 80%. Þar sýnir það sig að þó stjórnarmeirihlutinn sé stór hér á þingi þá hefur hann yfirvigt í tilteknum nefndum þegar deilitalan gengur svona upp ef svo má segja. Þar sem ég er eini fulltrúi stjórnarandstöðunnar í þingmannanefnd EFTA get ég einfaldlega sagt, að þó ekki séu þannig séð beinlínis ágreiningsmál innan þess hóps sem starfar í þingmannanefnd EFTA væri ákjósanlegt að allir stjórnmálaflokkar ættu aðkomu að þessum málum.

Ég hef talað fyrir því að hér á hv. Alþingi verði farin sama leið og hefur verið farin í norska Stórþinginu varðandi EES-samninginn og umræður um mál sem koma gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þar er sérstök Evrópunefnd sem er þannig skipuð að þar er utanríkismálanefnd þingsins annars vegar og þingmannanefndin gagnvart EFTA hins vegar sem sameiginlega fjalla um þessi mál. Reyndar segir í norsku þingsköpunum að þar að auki sé tryggt að allir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á þingi eigi aðild að þessari nefnd ef svo kynni að fara að þeir ættu ekki fulltrúa í annaðhvort utanríkismálanefnd eða EFTA-nefndinni.

Þetta er leið sem ég hef talað fyrir. Ég hef nefnt hana við formann utanríkismálanefndar. Ég veit að hann er sama sinnis um þetta atriði og við munum að sjálfsögðu reyna að tala fyrir því að þetta fyrirkomulag komist á (Forseti hringir.) hér.