135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[17:03]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það eru svo sem engin ný tíðindi að sjálfstæðismenn og vinstri grænir séu mjög sammála í Evrópumálum. En, guð minn góður, himinn og haf skilur þessa flokka að í svo mörgum öðrum málum að mér finnst ekki líklegt að þeir nái samstöðu hér á Alþingi um nýjan meiri hluta. Enda hafa samskipti mín og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar úr ræðupúlti Alþingis verið með eindæmum góð það sem af er þessu kjörtímabili og það lofar góðu. Stjórnarandstaðan er að stilla saman strengi sína og mér sýnist að henni gangi það ágætlega á mörgum sviðum.

En af því að samfylkingarmenn eru svo viljugir að tala um lýðræðisástina og allt þetta lýðræðistal, samræðustjórnmálin, þá kemur það mjög ankannalega fyrir sjónir að EFTA-nefndin skuli vera skipuð með þessum hætti. Það væri mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðherra á því að EFTA-nefndin skuli vera skipuð með þeim hætti að stjórnarflokkarnir skuli hafa fjóra menn en þrír stjórnarandstöðuflokkar einn. Er ekki mikilvægt að sjónarmið allra flokka í þessari Evrópuumræðu komi fram á vettvangi EFTA-nefndarinnar? Ég spyr eftir að hafa verið í þessari nefnd sem er mjög mikilvæg. Ég man að við hv. þingmaður fórum m.a. í ferðir út til Evrópu til þess að fjalla um mörg mikilvæg mál þar.

Það er einfaldlega lýðræðishalli þegar kemur að skipan í þessar nefndir. Ég vonast til þess, miðað við umræðuna hér og í ljósi þess að við teljum að efla eigi þingið hvað þessi mál áhrærir, að fulltrúar allra flokka fái að koma að þessari mikilvægu vinnu sem snertir svo mikið vinnustað okkar þingmanna, Alþingi Íslendinga. Það er staðreynd að gríðarlega mikið magn af lögum fer í gegnum þingið á hverju ári og því mikilvægt að við fáum að koma að því að fylgjast með gangi mála á (Forseti hringir.) þessum vettvangi.