135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[17:07]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi eru mismunandi áherslur í Evrópumálum eins og hv. þingmaður nefnir. En stefna Framsóknarflokksins í Evrópumálum er mjög skýr. Framsóknarflokkurinn vill byggja á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Eins og komið hefur fram í umræðunni hér í dag mætti gera enn betur í þeim efnum að nýta sér þau tæki sem þar eru fyrir hendi til að fylgjast með gangi mála.

Hvergi hefur verið rætt eins mikið og unnið eins mikið að framgangi Evrópumála og innan Framsóknarflokksins. Á sínum tíma unnum við mjög viðamikla skýrslu á vegum flokksins um Evrópumál þar sem við komumst að þessari niðurstöðu. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar ekki viljað útiloka hugsanlega aðild að Evrópusambandinu um alla framtíð. Það geta komið upp ákveðnar aðstæður þar sem Íslandi gæti orðið nauðugur kostur að fara inn í Evrópusambandið. Við getum ekki útilokað það.

Framsóknarflokkurinn hefur því viljað beita sér fyrir opinni umræðu um Evrópumál. Við erum í þeirri vinnu núna, m.a. að ræða málefni gjaldmiðilsins fordómalaust. En stefnan er alveg skýr. Framsóknarflokkurinn vill byggja á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði en eins og komið hefur fram hér í umræðunni hefur hann reynst okkur mjög vel. Hann nýtist okkur vel í dag. Ég ítreka að stefnan er ekki óskýr þó að áherslur milli einstakra manna geti verið mismunandi.

Það er mikilvægt upp á framtíðina að gera að ræða þessi mál. Framsóknarflokkurinn hefur verið í forustu í þeim efnum að ræða þessi mál fordómalaust þannig að við Íslendingar séum reiðubúnir til að taka á öllum þeim stöðum sem geta komið upp í ófyrirsjáanlegri framtíð hvað þessi mál áhrærir. En stefnan er skýr. Við byggjum á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.