135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[17:09]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Ég þakka þeim fjölmörgu þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem segja má að hafi farið nokkuð um víðan völl en þó alltaf tengst málinu með einum eða öðrum hætti, eins og þar stendur, af því að það spratt nokkur umræða hér um aðkomu löggjafans og framsal á fullveldi og lýðræðishalla vegna þeirrar staðreyndar að hér er um að ræða tilskipun — við höfum ekki mikið svigrúm frá henni til að ganga lengra eða skemur, hér er um að ræða hámarkstilskipun. Þannig að af því spratt sú umræða og það var ágætt.

En hér var líka tæpt á mörgum efnisatriðum sem snerta neytendavernd og eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins sem er náttúrlega grundvallarumræðan í málinu. Þetta frumvarp er betrumbót á þeirri löggjöf allri og mörgu jákvæðu og góðu bætt við til að efla neytendavernd í landinu, t.d. því að Neytendastofu verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir. Í fyrsta lagi, um er að ræða heimild, ef fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum laganna um bann við óréttmætum viðskiptaháttum o.s.frv. Þannig að það er verið að styrkja talsvert neytendalöggjöfina í landinu með þessu ágæta máli sem við höfum verið að ræða hér í dag, þó að það hafi svo leitt af sér umræðu um aðkomu löggjafans að lagagjörð innan Evrópusambandsins o.s.frv. sem var nú reyndar hin prýðilegasta umræða og málefnaleg og ágæt.

Það sem upp úr því stendur, eins og staðan er núna, þá er allt sem krefst lagabreytinga í aðildarlöndunum samþykkt með stjórnskipulegum fyrirvara, eins og ég nefndi hér áðan, af okkar hálfu í sameiginlegu EES-nefndinni. Slíkum fyrirvara er ekki aflétt fyrr en lögin hafa verið sett hér á Alþingi. Það er sá stjórnskipulegi fyrirvari sem við búum við og höfum sem Alþingi og löggjafarvald í þessu máli öllu.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi í fyrsta lagi EFTA-nefndina og aðkomu stjórnarandstöðunnar að henni. Þegar við sátum í henni saman, ég og hv. þingmaður, á síðasta kjörtímabili voru þar þrír fulltrúar stjórnar og tveir frá stjórnarandstöðu eins og hann nefndi. Þeir voru á þeim tíma báðir frá Samfylkingunni, hinir tveir frá Sjálfstæðisflokki og einn frá Framsókn. (Gripið fram í.) Á síðasta kjörtímabili? Það voru tveir, tveir og einn.

Sé mönnum alvara með að efla mjög verulega aðkomu löggjafarvaldsins og Alþingis að allri þessari samvinnu, að EES-samningnum, að löggjöfinni á vettvangi Evrópuþingsins, að aukinni samvinnu EFTA-landanna í þessu máli öllu, þá hlýtur það að vera eitthvað sem verður skoðað. Ef auka á og bæta verulega aðkomu Alþingis að þessum málum öllum almennt hlýtur það að vera skoðað líka hvort hægt sé að auka aðkomu stjórnarandstöðunnar að vinnu í EFTA-nefndinni. Ég þekki það mál ekki frekar. En eins og ég segi, gangi t.d. brýningar hv. þm. Bjarna Benediktssonar eftir fyrir hönd sinnar þingnefndar, um aukna aðkomu þingsins að löggjöf og tilskipunum frá Evrópusambandinu, hlýtur það að vera eitthvað sem kemur þar upp líka.

Rétt aðeins um neytendamálin almennt af því hv. þingmaður spurði um þau. Í haust, í október og nóvember, kynntum við í viðskiptaráðuneytinu stefnumótun og vinnu sem við hleyptum þá af stokkunum í neytendamálum almennt. Markmiðið var að stórefla þann þátt viðskiptaráðuneytisins sem snýr að neytendamálum og setja neytendamálin í alveg sérstakt kastljós íslenskrar stjórnmálaumræðu. Enda mjög margt þar sem hægt er gera og færa til mikilla bóta.

Fyrir það fyrsta kynntum við þau mál sem snúa að neytendamálum og lúta að lagabreytingum hér í þinginu eða lagasmíð og eru í vinnslu í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar. Auðvitað snerta neytendamálin aðra málaflokka beint og óbeint, málefni skarast o.s.frv. Þar kynntum við sérstaklega innheimtulög og margt annað. En það sem kannski á eftir að verða stærsti þátturinn í neytendastefnumótunarvinnunni sem við hleyptum af stokkunum í haust er samningur sem viðskiptaráðuneytið gerði þá við þrjár háskólastofnanir í Háskóla Íslands um úttekt á stöðu neytendamála á Íslandi, lagalegri stöðu og almennri stöðu út frá mjög mörgum sjónarhornum. Skýrslur þessara þriggja háskólastofnana um neytendamál koma í apríl og verða að sjálfsögðu kynntar með viðeigandi hætti þegar að því kemur. Þær munu, trúi ég og bind vonir við, reynast mjög gagnleg yfirferð yfir stöðu neytendamála á Íslandi, hvað þarf að bæta með nýrri löggjöf eða bættri löggjöf o.s.frv.

Í þriðja lagi kynntum við áform okkar um að efla mjög starfsemi Neytendastofu á þeim verksviðum sem snúa beint og sérstaklega að neytendaverndarmálum almennt og er það mál sem verður unnið að á næstu mánuðum og missirum. Þá þarf einnig að efla og byggja undir starfsemi frjálsra neytendasamtaka, Neytendasamtakanna á Íslandi, bæði með auknum fjárstuðningi við samtökin og auknum samskiptum við Neytendasamtökin að öllu leyti. Við Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, höfum átt glimrandi samstarf á þeim tíma sem liðinn er frá því að ríkisstjórnin settist að völdum í maí í fyrra.

Það er því mjög margt sem við erum að gera á vettvangi neytendamála sem mun koma fram á næstu mánuðum og missirum. Við munum náttúrlega vinna úr þessum skýrslum háskólastofnananna. Nokkur af nýsmíðunum á sviði lagagjörðar hafa nú þegar komið inn í þingið eins og innheimtulögin og svo margt annað.

Að lokum er annað sem tengist bæði Evrópumálum og neytendamálum með mjög viðamiklum hætti. Viðskiptaráðuneytið styrkti nú á dögunum Rannsóknastofnun í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst og Rannsóknasetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst til rannsókna á áhrifum aukinnar notkunar erlendrar myntar á vörumarkaði, fjármálamarkaði og samfélag á Íslandi almennt og sérstaklega til að skoða áhrif mismunandi tenginga við ofangreinda þætti erlendrar myntar. Meginspurningarnar eru tvær: Hvort á Íslandi sé að verða til fjölmyntasamfélag, og hvaða áhrif það hefur á markaði og samfélag, og hvaða afleiðingar ólíkar tengingar við evru hafa á íslenskan fjármálamarkað og fjármálastöðugleika. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í ágúst á þessu ári í formi skýrslu og rannsóknarritgerða og verða þær kynntar opinberlega í kjölfarið. Mun það örugglega reynast mjög mikilvægt fóður einnig í þessa umræðu alla um gjaldmiðilinn og stöðuna og áhrif aukinnar notkunar annarrar myntar — 70% af lántökufyrirtækjum er í erlendri mynt, 16% af lántökum almennings o.s.frv. Það er því mjög mikilvægt að fyrir liggi hvaða áhrif sú þróun hefur á bæði vörumarkaðinn og fjármálamarkaðinn.

Það er því mjög margt sem við erum að gera á vettvangi neytendamála og verður gaman að fylgja þeirri vinnu eftir á næstu mánuðum og missirum. Okkur mun vonandi nýtast sumarið til að vinna t.d. úr háskólaskýrslunum sem koma í apríl. Einnig er verið að vinna að ýmiss konar annarri löggjöf í viðskiptaráðuneytinu sem kemur í framhaldinu af því að nefndin um gjaldtöku fjármálastofnana skilaði af sér í byrjun janúar mjög ágætum og merkum niðurstöðum að mörgu leyti. Í dag voru send út tilmæli mín til fyrirtækja og fjármálastofnana sem varða seðilgjöldin, um að notkun þeirra skuli hætt, og auk þess fylgir í kjölfar niðurstöðu gjaldtökunefndarinnar ýmis önnur lagagjörð sem verið er að vinna að í ráðuneytinu og mun koma fram á næstunni. Ég gæti haldið lengi áfram.

Þingmaðurinn spurði um stærstu málin á vettvangi neytendamála sem verið væri að vinna að og þau eru fjölmörg.