135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[17:19]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér sem viðskiptaráðherra fyrir frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum, á þskj. 628.

Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum samkeppnislaga er varða samruna, en nú er kveðið á um samruna í 17. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Miðar frumvarpið að því að styrkja ákvæði um samruna í íslenskum lögum og færa þau nær reglum EES- og Evrópusambandsréttarins. Þá tekur frumvarpið mið af reynslu Samkeppniseftirlitsins við meðferð samrunamála á síðustu missirum en á árinu 2006 tók Samkeppniseftirlitið ákvarðanir í 30 samrunamálum og enn fleiri samrunatilkynningar bárust stofnuninni á árinu 2007 en í nóvember höfðu borist 40 samrunatilkynningar frá áramótum og voru samrunamál 23% af heildarmálafjölda Samkeppniseftirlitsins árið 2007.

Yfirtaka eins fyrirtækis á öðru eða samruni fyrirtækja getur leitt til þess að samkeppni, sem hefur verið til staðar, minnkar eða hverfur jafnvel alveg. Þannig getur orðið til fyrirtæki sem hefur markaðsráðandi stöðu eða jafnvel einokun á markaðnum og forsenda þess að samkeppnisyfirvöld geti gripið inn í samruna eða yfirtöku fyrirtækja er að þau fái upplýsingar um yfirtökuna eða samrunann. Því mæla samrunareglur fyrir um tilkynningarskyldu á fyrirtæki sem standa að eða taka þátt í yfirtöku eða samruna.

Ákvæði um samruna voru fyrst sett í íslensk lög árið 1993 og þegar samkeppnislögum var breytt árið 2000 voru samrunaákvæði laganna styrkt til muna. Breytingarnar tóku m.a. mið af samrunareglugerð Evrópusambandsins nr. 4064/89. Þá var einnig lögfest svokölluð minni háttar regla þess efnis að samrunaákvæði samkeppnislaga tæki einungis til samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja væri einn milljarður kr. eða meira og ársvelta a.m.k. tveggja fyrirtækja sem aðild eiga að samrunanum væri 50 millj. kr. eða meira. Þegar ný samkeppnislög voru sett á árinu 2005 var samrunareglum laganna ekki breytt að öðru leyti en því að Samkeppniseftirlitinu voru falin þau verkefni sem samkeppnisráð hafði áður sinnt.

Íslenskur samkeppnisréttur hefur frá upphafi sótt fyrirmyndir til Evrópuréttar og taka gildandi samrunareglur m.a. mið af eldri samrunareglugerð Evrópusambandsins. Á árinu 2004 var sett ný Evrópureglugerð um samruna, nr. 139/2004. Með henni voru reglur Evrópusambandsins um samruna lagaðar að þeim viðfangsefnum sem fylgja aukinni samþættingu á markaði og stækkun sambandsins.

Við setningu nýrra samkeppnislaga á árinu 2005 voru lögfestar þær breytingar á ákvæðum laganna sem nauðsynlegt var að gera vegna innleiðingar þeirrar reglugerðar. (Gripið fram í.) Nú þykir hins vegar ástæða til að endurskoða ákvæði íslensku laganna með hliðsjón af Evrópureglum enda rík hefð fyrir því að íslenskur samkeppnisréttur endurspegli reglur Evrópuréttar. Helstu breytingarnar sem lagt er til að gerðar séu á frumvarpinu núna eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að samruni komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann en ekki eftir að samruni hefur átt sér stað, eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Nokkurt óhagræði er að gildandi fyrirkomulagi, sem er séríslenskt og má rekja tilurð reglunnar til breytingartillagna efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á árinu 1993 við frumvarp sem varð að samkeppnislögum nr. 8/1993. Breyting sú sem hér er lögð til tekur mið af ákvæðum samrunareglugerðar Evrópusambandsins auk þess sem í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er alls staðar farin sú leið að kveða á um að óheimilt sé að framkvæma samruna fyrr en ákvörðun samkeppnisyfirvalda liggur fyrir.

Í öðru lagi er lögð til hækkun á veltumörkum sem miða skal við þegar metið er hvort samrunar séu tilkynningarskyldir. Þannig er gert ráð fyrir að skylt verði að tilkynna samruna til Samkeppniseftirlitsins ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 2 milljarðar kr. eða meira og ársvelta a.m.k. tveggja af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum yfir 200 millj. kr. Þá er það nýmæli í ákvæðinu að skýrt er tekið fram að fjárhæðarmörkin miðist við veltu fyrirtækja á Íslandi.

Veltumörk íslensku samkeppnislaganna hafa verið nokkuð gagnrýnd fyrir að vera of lág, fjárhæðirnar sem miðað er við í gildandi lögum hafa ekki breyst síðan þau voru lögfest á árinu 2000. Á þeim átta árum sem liðin eru hafa gífurlegar breytingar orðið í íslensku viðskiptalífi svo varlega sé til orða tekið og hafa umsvif íslenskra fyrirtækja aukist mjög mikið og því þykir rétt að leggja til hækkun á veltumörkum laganna nú. Sams konar minni háttar reglu um veltumörk er að finna í samkeppnislögum allra Norðurlandaþjóðanna og hafa veltumörk sænskra, danskra og finnskra samkeppnislaga verið mun hærri en þeirra íslensku.

Í þriðja lagi er hér lagt til að Samkeppniseftirlitið fái auknar heimildir til að ógilda samruna eða setja skilyrði fyrir honum með því að veita stofnuninni aukið svigrúm til efnislegs mats á samkeppnislögum og áhrifum samruna.

Samkvæmt gildandi lögum getur Samkeppniseftirlitið gripið til íhlutunar vegna samruna undir tvennum kringumstæðum, annars vegar þegar samruni raskar samkeppni með myndun eða styrkingu markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis, og hins vegar þegar samruni raskar samkeppni með myndun eða styrkingu sameiginlegrar markaðsráðandi stöðu tveggja eða fleiri fyrirtækja. Það er hins vegar ljóst að samruni getur undir vissum kringumstæðum raskað samkeppni þrátt fyrir að að hann skapi ekki eða styrki markaðsráðandi stöðu eins eða fleiri fyrirtækja. Af þessu leiðir að ef samrunareglur heimila einungis inngrip í samruna sem styrkir eða myndar markaðsráðandi stöðu getur það leitt til þess að samkeppnishamlandi samrunar nái fram að ganga með tilheyrandi tjóni fyrir atvinnulífið og almenning. Því er lagt til að heimildir Samkeppniseftirlitsins verði víkkaðar út hvað þetta varðar.

Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði að setja fram styttri tilkynningar um samruna í tilteknum tilvikum. Til að hægt sé að senda inn styttri tilkynningar verður eitt af skilyrðum þeim sem koma fram í 5. mgr. 17. gr. að vera uppfyllt. Þau skilyrði eru í fyrsta lagi að þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir séu ekki tengdir, í öðru lagi má tilkynna um samruna með styttri tilkynningu ef tveir eða fleiri aðilar samrunans starfa á sama vöru- og landfræðilega markaði og markaðshlutdeild þeirra samanlagt er minni en 20%. Í þriðja lagi er mögulegt að senda inn styttri samrunatilkynningu þegar um er að ræða samruna sem hefur takmörkuð áhrif hér á landi. Loks er lagt til að senda megi inn styttri tilkynningar í þeim tilvikum þar sem aðili sem hafði sameiginleg yfirráð yfir fyrirtæki nær fullum yfirráðum yfir fyrirtækinu. Allt er þetta gert til að auka málahraða og skilvirkni innan eftirlitsins og flýta fyrir innan þeirra boðleiða sem eðlilegt er að það sé gert.

Í fimmta lagi er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að taka mál fyrir að nýju, hafi áfrýjunarnefnd eða dómstóll ógilt ákvörðun eftirlitsins sökum formgalla en eru þá málsmeðferðarfrestir mun styttri en almennt.

Loks eru lagðar til breytingar á ákvæðum um fresti til að taka ákvarðanir í samrunamálum.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta miðar að styrkingu lagaákvæða um samruna sem leiðir til enn þá öflugra samkeppniseftirlits, sem stuðlar að aukinni samkeppni á íslenskum markaði. Því er hér um að ræða frumvarp sem er mikilvægt að nái fram að ganga og ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til viðskiptanefndar. Ég vil bæta því við að lokum að auk umbóta á lagagjörð og umhverfi Samkeppniseftirlitsins er mjög mikilvægt að efla starfsemi þess með auknum fjárveitingum og það var gert á síðasta ári, þá var stigið stórt skref þegar fjárheimildir til þess voru auknar um 30% á milli ára. Það er mjög mikilvægt að eftirlitið geti skilað málum hratt og örugglega af sér þannig að málsmeðferð verði öll eins og best verður á kosið sem er að sjálfsögðu til mikilla hagsbóta bæði fyrir fyrirtækin og almenning í landinu þannig að leikreglunum sé fylgt og málahraðinn sé eins góður og hugsast getur.