135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[17:47]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir það með hv. þingmanni að sjálfsagt er að viðskiptanefnd skoði þessi stóru álitaefni og fari yfir þau t.d. í sambandi við veltumörkin, samrunaákvæðin, endurupptökuákvæðin o.fl. Það er auðvitað verkefni nefndarinnar að fara yfir þessi mál með umsagnaraðilum og öllum þeim sem málinu tengjast. Það snertir marga og ég efast ekki um að málið komi betra þaðan út heldur en það fer þangað inn héðan úr þinginu. Umræðan í dag og á síðustu vikum og mánuðum í aðdraganda lokasmíðar frumvarpsins hefur verið mjög góð og efnismikil á öllum vígstöðvum.

Ég taldi sjálfur, eftir að hafa farið yfir umræðuna um veltumörkin og hækkun þeirra annars vegar á neðri mörkunum, 50 millj. kr., og hins vegar efri mörkunum, um milljarðinn, að þau sjónarmið ættu meiri rétt á sér, að ekki væri sanngjarnt að halda mörkunum svona lágum. Hv. þm. Bjarni Benediktsson flutti um það frumvarp fyrr í haust sem ég fylgdist með af athygli. Ég tel að lagabót sé að því að hækka viðmiðunarmörkin með þeim hætti sem viðskiptanefnd kemst að, auk þess að endurupptökuákvæði væri réttlætanlegt ef það væri bundið við þann skamma frest sem þarna er gefinn.

Hvað varðar samrunaákvæðið um að það taki ekki gildi fyrr en eftir umfjöllun þá hef ég djúpa sannfæringu fyrir því að það sé rétt og góð lagabót en það verður líka gaman að fylgjast með hvernig þeirri umræðu vindur fram í nefndinni.