135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[17:49]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg vegna þess frumvarps sem hér er verið að ræða, þ.e. frumvarps hæstv. viðskiptaráðherra til laga um breytingu á samkeppnislögum og samrunaákvæðum samkeppnislaganna.

Ég held að ágætt sé að byrja á því að hrósa því í frumvarpinu sem vel er gert og tek undir það með hv. þm. Bjarna Benediktssyni að auðvitað er sérstakt fagnaðarefni að hæstv. ráðherra leggi til í 3. gr. frumvarpsins breytingu á þeim veltuviðmiðunum sem nú er kveðið á um í gildandi samkeppnislögum. Þau veltuviðmið eru nú, að því er ég hygg og flestir sem að þessum málum hafa einhvern tíma komið, allt of lág og hafa ekki breyst síðan samkeppnislögin tóku gildi árið 1993. Viðmiðin frá þeim tíma voru ekki vísitölutengd og hafa ekki fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi eða komið til móts við þær miklu breytingar og þann mikla vöxt sem þar hefur verið. Ég hlýt því að fagna því að hæstv. viðskiptaráðherra leggi til býsna myndarlega hækkun á þeim veltuviðmiðum sem núgildandi ákvæði samkeppnislaga kveða á um. Auðvitað má alltaf deila um hvort nógu langt sé gengið við hækkun á viðmiðunum og menn geta haft mismunandi skoðanir um það. Ég tel engu að síður mjög virðingarvert hjá hæstv. ráðherra að stíga þetta skref til að auðvelda fyrirtækjum í atvinnulífinu að renna saman. Það gerir einnig starfsemi Samkeppnisstofnunar skilvirkari en hún er nú og kemur í veg fyrir að þessi eftirlitsstofnun sem hefur verið störfum hlaðin þurfi að skipta sér af minni háttar samrunum félaga sem maður fær ekki séð að krefjist þess að yfir þeim sé legið. Ég fagna mjög þessu ákvæði og það verður gaman að sjá þegar málið kemur til hv. viðskiptanefndar hvaða viðtökur tillaga hæstv. ráðherra fær hjá fulltrúum atvinnulífsins.

Varðandi önnur atriði frumvarpsins þá hef ég uppi ákveðnar efasemdir um þrjá þætti þess. Það er á svipuðum nótum og þeim sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsti, þ.e. í fyrsta lagi ákvæði um að samrunar komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann eins og lagt er til í 3. mgr. a-liðar 3. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi að heimildir Samkeppniseftirlitsins til að ógilda samruna eða setja þeim skilyrði séu víkkaðar út. Í þriðja lagi að mælt sé fyrir um heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að taka mál fyrir að nýju hafi áfrýjunarnefnd eða dómstóll ógilt ákvörðun eftirlitsins sökum formgalla.

Almennt séð segi ég að þegar menn fjalla um ákvæði samkeppnislaganna er nauðsynlegt að þeir nálgist ákvæði þeirra með mismunandi hætti. Mismunandi sjónarmið búa að baki ólíkum ákvæðum samkeppnislaganna. Ég nefni sem dæmi bannákvæði samkeppnislaga, ákvæði sem fjalla um misnotkun á markaðsráðandi stöðu, ákvæði um ólögmætt verðsamráð o.s.frv. Það eru ákvæði sem eru þess eðlis að í rauninni er verið að taka á atferli fyrirtækja eða forsvarsmanna fyrirtækja sem teljast ámælisverð eða jafnvel glæpsamleg gagnvart neytendum og ber að skýra þau sem slík. Síðan eru önnur ákvæði eins og samrunaákvæðin sem fela ekki í sér eða er ekki ætlað að taka á einhvers konar ámælisverðri hegðun fyrirtækja í atvinnulífinu heldur lúta miklu frekar að eðlilegri þróun sem á sér stað í viðskiptalífinu. Það eru allt önnur sjónarmið sem búa að baki slíkum ákvæðum en þeim sem mæla fyrir um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða ólögmætu samráði o.s.frv. Við verðum að nálgast umræðuna um þessi atriði á grundvelli þessara forsendna sem ég hef lýst.

Ég á erfitt með að sjá að eitthvað í íslensku atvinnulífi og viðskiptalífi kalli beinlínis á þær breytingar sem hér er verið að leggja til, sérstaklega hvað varðar fyrsta atriðið, um að samruni fyrirtækja fái ekki að taka gildi eða koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Ég hefði talið að núverandi fyrirkomulag hafi gefist ágætlega og í sjálfu sér sé ekkert ófremdarástand í þjóðfélaginu sem kalli á að við gerum lagabreytingu til að breyta núverandi fyrirkomulagi. Á það hefur verið bent að heppilegt sé að sambærilegar reglur hvað þetta varðar gildi á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Ég held að viðskiptanefnd ætti að taka til skoðunar hvort svo er. Lausleg athugun mín hefur leitt það í ljós að á þessu sé allur gangur hvort samrunar fá að koma til framkvæmda áður en samkeppnisyfirvöld í viðkomandi löndum hafa fjallað um þá eða ekki.

Það er líka mikilvægt að því sé haldið til haga, eins og fram kemur í greinargerðinni, að frumvarpið sem við erum að fjalla um byggir á reglugerð frá Evrópusambandinu en Ísland er ekki bundið af því að innleiða þessa reglugerð. Það er ekkert í alþjóðaskuldbindingum okkar sem kallar beinlínis á að við ráðumst í þessar breytingar. Í frumvarpinu segir hvað þetta atriði varðar, þ.e. að samrunar komi ekki til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um þá, að hagsmunir fyrirtækjanna kalli á að ráðist verði í þessar breytingar. Það verður fróðlegt að sjá þegar málið er komið til nefndar hvort það reynist rétt. Ég hef efasemdir um að fyrirtækin kalli sérstaklega á að þessum ákvæðum verði breytt.

Ég hef tekið eftir því í málflutningi hæstv. ráðherra sem tók við störfum í viðskiptaráðuneytinu eftir síðustu kosningar — og ég hef fylgst vel með hans störfum. Ég hef haft á tilfinningunni, og það má sjá af mörgu því sem hæstv. ráðherra hefur viljað gera, að hann hefur viljað haga reglum í fjármálalífinu þannig að þær séu fyrirtækjunum til góða, séu þess eðlis að þau geti starfað, vaxið og dafnað en séu ekki of íþyngjandi fyrir félögin.

Ég er ekki viss um að frumvarpið sé beinlínis til þess fallið að auka frjálsræði og skilvirkni á þessu sviði. Markmið samkeppnislaga er fyrst og fremst að efla virka samkeppni í þjóðfélaginu. Til að lögin nái því markmiði sínu er grundvallaratriði að fyrirtæki fái skjóta úrlausn mála sinna hjá Samkeppniseftirlitinu. Meðan skjót úrlausn mála fæst ekki ná lögin ekki markmiðum sínum nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég óttast að verði þessi ákvæði að lögum flæki þau stjórnsýslu þessara mála og geri það að verkum að málsmeðferðartíminn lengist frekar en hitt.

Við verðum síðan að hafa í huga, af því að hér er verið að tala um samruna félaga, að það er ekkert smámál að senda inn samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins. Menn setjast ekkert niður, skrifa bréf og segja: Þessi tilteknu fyrirtæki ætla að renna saman. Samrunatilkynning til Samkeppniseftirlitsins kostar mikla vinnu fyrir fyrirtækið, upplýsingaöflun, skilgreiningu á mörkuðum o.s.frv. Til þeirrar vinnu þurfa fyrirtækin að kosta til miklu vegna aðkomu sérfræðinga á viðkomandi sviði.

Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem er öllum hnútum kunnug þegar kemur að samkeppnismálum, skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið þann 15. desember 2007 undir fyrirsögninni „Forsjárhyggja eða fyrirhyggja“. Í greininni víkur hún að því ákvæði frumvarpsins sem kveður á um að samruni komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Hún viðrar þar sambærileg sjónarmið og þau sem hv. þm. Bjarni Benediktsson vék að í ræðu sinni, sem ég leyfi mér að gera að mínum. Við erum öll sammála um að ætli menn sér að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu sé hætta á að málsmeðferðartími og stjórnsýsla í tengslum við samkeppnismálin um samruna fyrirtækja muni þyngjast og lengjast. Ég fæ ekki séð að það sé atvinnulífinu eða fyrirtækjum í landinu til góðs. Greinin hlýtur að koma til skoðunar og eins þau sjónarmið sem þar koma fram í vinnu nefndarinnar við málið en ég legg til að nefndin athugi þessi atriði sérstaklega, einkum með hagsmuni atvinnulífsins að leiðarljósi.

Í frumvarpinu er einnig gerð tillaga um að útvíkkun á heimildum Samkeppniseftirlitsins til að ógilda samruna eða setja skilyrði fyrir honum verði víkkuð út. Ég hef efasemdir um að skynsamlegt sé að fara í slíka útvíkkun. Samkeppniseftirlitið hefur ríkar heimildir til að ógilda samruna og setja skilyrði fyrir honum en ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir að heimildir Samkeppniseftirlitsins verði matskenndari en þær hafa áður verið. Ég er almennt þeirrar skoðunar að í þessum málaflokki og lögum almennt þar sem kveðið er á um heimildir stjórnvalda sé heillavænlegra og í betra samræmi við góða lagasetningarhætti að reglurnar séu skýrar frekar en þær séu matskenndar.

Síðan varðandi þriðja atriðið, um að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að taka mál fyrir að nýju hafi áfrýjunarnefnd eða dómstóll ógilt ákvörðun eftirlitsins sökum formgalla, þá vara ég mjög við þeirri breytingu. Ég tel að ef Samkeppniseftirlitið getur ekki hagað málatilbúnaði sínum með þeim hætti að formreglur laga séu uppfylltar eigi fyrirtækin og viðskiptalífið að njóta vafans. Ég tel að það sé ekki til hagsbóta fyrir atvinnulífið að þau þurfi að bera hallann af því ef Samkeppniseftirlitinu yfirsjást einhverjir formgallar sem leiða til ógildingar. Það er nýmæli í íslenskri löggjöf og er til komið vegna þess að auðvitað geta komið upp atvik þar sem um ágreining er að ræða sem fer í gegnum Samkeppniseftirlitið, síðan áfrýjunarnefndina og eftir atvikum dómstóla sem leiðir til þess að málið er ógilt. Slík mál fara þá aftur af stað frá upphafspunkti. Það gerir það að verkum að samrunar fyrirtækja eða slíkur ágreiningur getur verið í lausu lofti í eitt til tvö ár og jafnvel lengur og það er ekki ásættanlegt fyrir fyrirtækin í landinu.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum (Forseti hringir.) á framfæri við 1. umr. málsins og vonast til að þau verði tekin til skoðunar (Forseti hringir.) við meðferð viðskiptanefndar á málinu.