135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[18:59]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að standa upp og þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni og þær góðu undirtektir sem frumvarpið hefur fengið. Mér kemur ekki á óvart að ýmsar spurningar hafi vaknað og athugasemdir verið settar fram. Þetta er mál sem við höfum legið mjög yfir í ráðuneytinu og einmitt yfir mörgum þeirra spurninga sem hér eru lagðar fram. Því finnst mér mjög eðlilegt að það sem hér hefur verið varpað fram vilji menn að skoðað verði í nefndinni.

Ég held að þarna hafi verið reynt að fara bil beggja, bæði leigusala og leigutaka. Ég hygg að hægt sé að segja að gætt hafi verið meðalhófs í þessu máli eins og kostur er og ýmislegt sem hefur komið fram í spurningunum ber þess merki.

Auðvitað má spyrja: Af hverju á það að vera hálfur hektari sem hægt er að minnka lóðina um ef um framlengingu er að ræða? Þetta er meðalhófsregla sem menn töldu að rétt væri að setja. Það er náttúrlega mikill réttur sem leigusalar fá þegar þeir geta einhliða framlengt leiguréttinn í 25 ár. Leigusalinn hefur á móti ýmis réttindi sem hann fær með þessum lögum og þetta er m.a. einn af þeim, að geta minnkað lóðina.

Það er einnig eðlileg spurning sem fram kom hjá Jóni Magnússyni, hv. 10. þm. Reykv. s., um fjölda lóða undir frístundahús, hvort þær eigi að vera fimm eða sex eða hve margar. Þetta eru allt eðlilegar spurningar sem menn þurfa að setjast yfir í hv. félagsmálanefnd.

Um það að leigusali geti tvöfaldað fjárhæðina ef um framlengingu er að ræða, þá töldu menn að þar væri líka verið að gæta meðalhófs, en ég tek alveg undir þær athugasemdir sem hér komu fram og menn höfðu uppi hvað þetta varðar. Það er ekki sjálfgefið að það eigi að vera tvöföldun á leigu. En leigufjárhæðirnar, þegar um er að ræða að leiga hafi staðið í 25 ár á undan, eru margar mjög lágar og menn töldu því sanngjarnt að setja þetta upp með þessum hætti. En eðli máls samkvæmt mun nefndin auðvitað skoða þetta atriði í nefndinni.

Eins er varðandi innlausnarréttinn eins og hér kom fram. Er eðlilegt að leigusali þurfi að bíða í 10 ár? Menn geta haft skiptar skoðanir á því, virðulegi forseti, en ég held að þarna hafi verið gætt meðalhófs eins og í öðru.

Hvað varðar gildistökuna sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, þá þarf auðvitað að skoða hana. Menn töldu eðlilegt að gera þetta svona, að gefa svigrúm í nokkra mánuði fyrir gildistöku til að kynna lögin í helstu frístundabyggðum landsins svo menn þekktu rétt sinn. Það eru ákvæði í frumvarpinu um að hafi leigusali ekki sagt upp tímabundnum leigusamningi tveimur árum fyrir lok leigutímans þá öðlast leigutaki einhliða rétt til að framlengja leigusamninginn um 25 ár og leigusala skal tilkynnt skriflega a.m.k. ári áður en uppsögnin tekur gildi að hann neyti réttar síns að framlengja leigusamninginn um 25 ár. Ef komið er fram yfir þennan tíma við lagaskilin núna hafa menn engu að síður ákveðinn rétt til 1. desember 2008, svo fremi að leigusamningurinn sé hreinlega ekki runninn út þegar lögin taka gildi.

Þetta er bara örstutt en ég taldi ástæðu til að koma upp sérstaklega til að fagna þeim undirtektum sem málið hefur fengið. Það hefur verið beðið lengi eftir þessum lögum og verið gerðar nokkrar atrennur að þessu máli. Ég hygg að það séu a.m.k. 15 ár síðan að menn byrjuðu að huga að því að nauðsynlegt væri að tryggja betur réttindi sumarhúsaeigenda á leigulóðum. Um mjög langan tíma hefur verið mikil umræða um og óánægja með réttleysi sumarhúsaeigenda á leigulóðum og skipulögðum sumarhúsasvæðum og árekstrar og deilur hafa verið miklar milli sumarhúsaeigenda og jarðeigenda. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni að segja má að þetta megi rekja til breytinga á jarðalögum en þá var réttur landeigenda aukinn og síðan hafa þessar deilur staðið.

Ég vona að okkur í félagsmálaráðuneytinu og þeim sem að þessu máli hafa komið af hálfu beggja stjórnarflokkanna og ýmissa umsagnaraðila, hafi tekist að fara þarna bil beggja og gæta meðalhófs sem er nauðsynlegt í svo viðkvæmu máli sem þetta er og að eftir atvikum geti þeir sem við löggjöfina eiga að búa verið sæmilega sáttir. Ég fagna aftur þeim undirtektum sem málið hefur fengið og vona að það eigi greiða leið í gegnum hv. félags- og trygginganefnd.