135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kem upp til að ræða mjög brýnt hagsmunamál í kjördæmi mínu, sem eru samgöngur til Vestmannaeyja. Samkvæmt þeim fréttum sem við fengum á liðnu sumri setti samgönguráðherra stefnuna á að ráðist yrði í Bakkafjöruhöfn og öðrum hugmyndum var vísað frá að sinni. Um það urðu í sjálfu sér ekki miklar deilur þó sitt sýnist vissulega hverjum um það og væri hægt að flytja um það langa ræðu.

Nú hefur það aftur á móti gerst á þessu ári að Vestmanneyingar telja sig hafa loforð frá hæstv. fjármálaráðherra um að rannsóknum vegna jarðgangagerðar verði lokið á næstunni. Ég fagna því vegna þess að það er margt í þessum rannsóknum sem er nauðsynlegt að liggi fyrir. Sjálfur hef ég alltaf talið að menn ættu ekki fyrir fram að sópa hugmyndinni um jarðgöng til Eyja út af borðinu heldur kanna þar alla kosti. Mér þykir samt allmikil óvissa vera komin upp í þessu máli og velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir, sem ekki geta komið sér saman um efnahagsmál, geti heldur ekki komið sér saman um hin smærri framkvæmdamál eins og samgöngur til einstakra kauptúna. Þótt vissulega sé þarna um stórvirki að ræða þá er mjög mikilvægt að menn séu samstiga.

Fulltrúar Ægisdyra voru fyrir nokkrum dögum boðaðir á fund samgöngunefndar til að gera grein fyrir þeim rannsóknum sem hér þarf að gera en lásu þau skilaboð í beinu framhaldi í blöðum að málið væri svo sem ekki á dagskrá og hlutu þar af leiðandi að spyrja sig að því til hvers þeir hefðu verið að gera sér bæjarferð. Mig langar til að spyrja formann samgöngunefndar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, hver stefna samgöngunefndar og stjórnarflokkanna er í þessu máli.