135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil rétt blanda mér í þessa umræðu. Ég tel að sú kynning sem fór fram í samgöngunefnd á því verkefni sem hér er til umræðu hafi verið afskaplega góð og tímabær. Ég held að ég geti fullyrt að bæði fyrir mig og mjög marga aðra nefndarmenn var hún afar upplýsandi og mikið af nýjum upplýsingum komu fram sem við a.m.k. höfðum ekki á reiðum höndum áður en fulltrúar Ægisdyra komu og kynntu okkur stöðu þessa verkefnis. Það er auðvitað alveg ljóst að samgöngur milli lands og Eyja eru gríðarlega mikilvægar fyrir byggðarlagið og um er að ræða þjóðveg sem við eigum að sjálfsögðu að tryggja að ásættanleg þjónusta sé á.

Það kom líka fram að áætlaður kostnaður af hálfu þeirra aðila sem hafa verið að fjalla um þetta verk er afskaplega mismunandi, menn tala um 20 milljarða eða þar um bil og alveg upp í 100 milljarða. Það er ljóst að ekki er hægt að taka ákvörðun um að ráðast í verkefni á grundvelli svo óljósra upplýsinga eða hugmynda um kostnað við þessar samgöngubætur.

Það kom líka fram í máli, ég skildi það a.m.k. þannig, fulltrúa Ægisdyra að þeir teldu þá ákvörðun sem þegar hefði verið tekin um framkvæmdir við Bakka vera næstbesta kostinn frá síum bæjardyrum séð og vildu að sjálfsögðu að við það yrði haldið. Ég tel hins vegar mjög eðlilegt að menn haldi áfram rannsóknum á þessu mikilvæga verkefni því það kom fram í máli þeirra sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar að mjög margt má rannsaka og þarf að rannsaka betur áður en menn taka nokkrar vitrænar ákvarðanir um framhald. Ég held að fjármunum væri út af fyrir sig vel varið í að rannsaka betur jarðfræði, eldfjallahræringar og annað slíkt á þessari leið áður en menn taka frekari ákvörðun. En ég tek undir það með formanni nefndarinnar að kannski er ekki komið að því að taka ákvörðun um jarðgöng til Eyja hér og nú.