135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sýni vott af ákveðnu sjálfstæði og vönduð vinnubrögð að þingnefnd skuli taka þetta mál upp, kynna það, fara yfir það og kynna sjónarmiðin, kynna fleirum þá umræðu sem fram hefur farið. Það er afar mikilvægt að nefndir vinni á þennan hátt og fyrir það ber að þakka formanninum.

Það breytir ekki hinu að það er geysilega mikilvægt að samgöngur við Eyjar verði bættar og það liggur mikið á. Þetta er lykilatriði fyrir þróun þessa samfélags. Eins og staðan er nú gera áætlanir ráð fyrir að árið 2010 verði tekin í notkun ferja sem gengur milli Heimaeyjar og Bakka. Það er lausn sem er skref fram á við frá því sem nú er en ég get einnig tekið undir að ekkert er endanlegt í þessari veröld eða í þessum efnum. Ef framtíðin leiðir í ljós að gangagerð er möguleg er það að sjálfsögðu besti kosturinn. Um það velkist enginn í vafa.

En ef menn ætla að ganga til þeirra verka að bæta samgöngur til Eyja í nánustu framtíð þá er það þessi leið sem er hvað best í augnablikinu. Hvort hægt verður að ganga lengra þegar fram líða stundir mun tíminn leiða í ljós og það munu þá rannsóknir einnig leiða í ljós. Þetta er staðan núna og ég held að það sé afar mikilvægt að menn sameinist um að fara þessa leið. Það er líka mikilvægt að halda áfram að bæta samgöngur því það er algert lykilatriði fyrir samfélög úti á landi að þau fái að þróast, dafna og eflast eins og nokkur er kostur.