135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla hér að brydda upp á öðru máli og ég beini fyrirspurn til hv. varaformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Það var um þarsíðustu helgi sem hæstv. menntamálaráðherra lýsti því yfir að það þyrfti að hækka laun kennara. Það liðu nokkrir dagar. Þá kom fjármálaráðherra og lýsti því yfir að hér væri um verkefni að ræða sem væri á hans borði og hann færi með málið en ekki hæstv. menntamálaráðherra og má þá segja að hann hafi snuprað hæstv. menntamálaráðherra með þeim orðum.

En nú velta menn því fyrir sér, og ekki síst kennarar, hver stefna Samfylkingarinnar sé í þessum málum. Það hefur ekkert heyrst frá Samfylkingunni. Í stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar sagði m.a. að bæta ætti launakjör hefðbundinna kvennastétta.

Nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn, eins og hún hlýtur alltaf að hafa reiknað með að gera, og þá er mjög áhugavert að heyra hvað hún er að vinna í málinu, komin með mikil völd.

Ég velti því samt fyrir mér hvort það sama sé kannski upp á teningnum í sambandi við launakjör kennara og í sambandi við samninga á vinnumarkaði almennt en hvað þá varðar hefur ekkert heyrst í Samfylkingunni. Það fer sögum af því að á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var ekki alls fyrir löngu hafi fulltrúar Samfylkingarinnar í verkalýðshreyfingunni gengið af fundi vegna þess að Samfylkingin hefur ekkert beitt sér í sambandi við það að reyna að ná samningum á vinnumarkaði. En sérstaklega, hæstv. forseti, var ég að spyrja um kennarana að þessu sinni.