135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og varaformanni Framsóknarflokksins kærlega fyrir fyrirspurnina. Til að taka af öll tvímæli get ég sagt að ég styð að sjálfsögðu að kennarar landsins fái hærri laun. Það er bara bjargföst skoðun mín að við þurfum að gera betur þegar kemur að launamálum þeirrar stéttar og reyndar fleiri.

Máli mínu til stuðnings er auðvelt að vísa í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar því þar stendur, með leyfi forseta:

„Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.“

Þetta á að sjálfsögðu við kennara að mínu mati. Ef við förum aðeins lengra í stjórnarsáttmálann, þá stendur þar einnig, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar.“

Það er því alveg ljóst að það er pólitískur vilji innan ríkisstjórnarinnar að mæta þessum áhersluatriðum sem auðvitað sjást í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það sé löngu komið að þessum stéttum, hinum svokölluðu umönnunarstéttum og velferðarstéttum. Þetta er grundvöllurinn að velferðar- og menntakerfi okkar og það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig komandi kjarasamningar fara í því efni.

Ég vil líka minna á það að þegar hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var borgarstjóri þá var myndarlega komið á móts við ýmsa hópa í borginni sem vinna í umönnunarstéttum og sýndu menn þar pólitískan kjark í þeim efnum.

Ég hef lengi kallað eftir meiri og fleiri peningum í menntakerfið. Ég tel að við þurfum að bæta þar í því það er auðvitað það skynsamlegasta sem við getum gert, þ.e. að verja meiri peningum í menntakerfið. Að því leyti er ég fullkomlega sammála varaformanni Sjálfstæðisflokksins um að það eigi að hækka laun kennara.

Að menn hafi gengið út af flokksráðsfundi Samfylkingarinnar kannast ég ekki við. En ég veit að Samfylkingin hefur gott samstarf við verkalýðshreyfingu innan sinna raða, það er sérstakt verkalýðsmálsráð sem er að störfum innan flokksins sem er nýtekið til starfa þannig að samstarfið við verkalýðshreyfinguna er með ágætum og það fólk sem starfar innan flokksins á þeim vettvangi.