135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fyrirspurnin er: Hver var afstaða Samfylkingarinnar til hækkunar launa kennara vegna ummæla hæstv. menntamálaráðherra?

Það er nú þannig að kjarasamningar og samkomulag er í höndum annarra en Alþingis, eða menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fer með það vald.

Ég hef hins vegar skoðun á kjarasamningum kennara sem og annarra stétta. Ég held að grundvallaratriðið til þess að hækka laun kennara sé í fyrsta lagi að gjörbylta þeim forsendum sem eru að baki kennarasamningum og hætta að meta sérfræðiþekkingu þessara stétta í mínútum og sekúndum og fara að meta sérfræðiþekkinguna eins og aðra sérfræðiþekkingu í þessu landi, en ekki í mínútum og sekúndum.

Ég held líka að þeir sem fara með umboðið og fara með kjarasamningana ættu að skoða það sem við höfum kallað sjálfstæði skólanna til þess að fara með sín mál innan sinna stofnana. Það skiptir máli. Í þriðja lagi liggur fyrir Alþingi frumvarp um aukna menntun, aukna kennaramenntun á öllum skólastigum. Það mun að sjálfsögðu, hæstv. forseti, kalla á launabreytingar hjá kennurum.

Ég vil taka undir með hv. varaformanni Samfylkingarinnar, Ágústi Ólafi Ágústssyni: Kennaramenntunin skiptir máli. Menntun þjóðarinnar skiptir máli. Kennarastéttin á að vera vel launuð og það á að meta sérfræðimenntun hennar til jafns á við sérfræðimenntun annarra stétta í landinu.