135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:04]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði eiginlega kvatt mér hljóðs til að tala um kennaramálið en umræðan þróast þannig að maður fer úr einu í annað.

Mig langaði að bregðast aðeins við því sem fram kom hjá síðasta ræðumanni og mér þykir reyndar miður að framsóknarmenn hér á þingi skuli hafa þann tilgang einan að reyna að sundra þeirri samstöðu sem smám saman er að myndast varðandi samgöngur til Eyja. Mér þykir það afar miður og vil segja við hv. þm. Guðna Ágústsson (Gripið fram í.) að umræður um jarðgöng og rannsóknir hófust 1998, 1999, ef ég man rétt. Hv. þingmaður var í ríkisstjórn í nokkur ár eftir það. Hv. þingmaður hefði getað beitt sér af krafti (GÁ: Og gerði.) og gerði það þegar þingmannahópurinn kom saman og náði fjármagni til þess að setja í rannsóknir. Hv. þingmaður kemur núna og talar um allt aðra hluti.

Staðreyndin er sú að það liggur á að bæta samgöngur til Eyja og þar má ekki setja allt á bið eins og var þegar hv. þingmaður átti sæti í ríkisstjórn. Nú eru breyttir tímar. Nú ætla menn að ráðast í framkvæmdir og verkefni og stefnan hefur verið mótuð. Það er alveg eins með þessar samgöngur og annað að menn byrja kannski á því að leggja veginn, síðan er hann malbikaður og smám saman bættur. Nú verður þetta gert, ráðist verður í að byggja upp á Bakka en það útilokar ekki að í framtíðinni muni menn finna enn betri leið og eðlilegt er að vinna að því.

Ég verð að segja við hv. þingmann: Þó að hann sé kominn í stjórnarandstöðu er afar mikilvægt að við reynum að ná hér samstöðu en ekki að efna til umræðu til þess eins að sundra því sem náðst hefur saman eftir mikla baráttu og langan tíma. (Gripið fram í: ... fyrir stjórnarflokkana.)