135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[14:28]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að tillögur í frumvarpinu eru mjög til bóta. (Gripið fram í.) Landsskipulagsáætlanir eru auðvitað ákveðið ferli eins og aðrar skipulagsáætlanir. Það sem þarf að gera, og þar reynir á ríki og sveitarfélög, á samstarf þeirra og samstarfsvilja, er auðvitað að skilgreina almannahagsmunina. Hvar eiga t.d. þjóðgarðar að vera? Þegar við ljúkum vinnu um rammaáætlun um verndun og nýtingu finnst mér blasa við að það sé hluti af heildarákvörðun um skipulag hvernig við förum í orkuöflun, hvar og hvernig.

Önnur stórmál eiga þar líka undir. Ferlið þarf að ræða, þetta er áætlun sem á að nýta og er í raun lifandi stjórntæki alveg eins og aðrar áætlanir sem unnið er með frá ríkisvaldinu. Þetta er samræmingartæki og ég held að það sé mjög mikilvægt. Það eru sameiginlegir hagsmunir bæði sveitarfélaga og ríkisins að hafa þessi mál á hreinu og í góðu samstarfi. Það þarf að vera skýrt í hugum íbúa landsins hvar sem þeir búa á hverju sé von þegar er verið að ræða um hagsmuni sem varða alla.

Sveitarfélögin hafa haft skipulagsvaldið frá 1997. Það eru tíu ár síðan þau fengu skipulagsvaldið, ef ég man það rétt. Stundum er talað eins og þannig hafi það alltaf verið en svo er ekki. (Gripið fram í.)

Ég vil að lokum í andsvari við hv. þingmann segja að ég er mjög bjartsýn á að vel gangi að ræða þessi mál. Þetta hefur hlotið mikinn undirbúning, mjög mikla kynningu. Þing mun standa alveg fram á haust þannig að það er góður tími fyrir umhverfisnefndina og þá sem í henni sitja til að leggjast yfir málið.