135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú hafa kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verið lausir í einn og hálfan mánuð. Í ummælum forustumanna Starfsgreinasambandsins sem telur 52 þúsund félagsmenn má greina von til þess að kjarasamningar gætu verið í sjónmáli á næstu dögum.

Nú virðist einnig að önnur heildarsamtök launamanna séu að vinna með viðsemjendum Samtaka atvinnulífsins að sameiginlegri lausn á kjaradeilunni. Forustumenn ASÍ meta það svo að samflot sé komið á að nýju eins og nú standa mál. Síðasta aðkoma ríkisstjórnarinnar var að neita að ræða lækkun á skattbyrði láglaunafólks sem olli því að samflot var þá lagt til hliðar.

Frá því í haust hefur verið ljóst að nást yrðu verulegar kjarabætur sérstaklega fyrir þá sem lægst hafa launin ella yrði ekki komið á kjarasamningum. Þess vegna var svo snemma leitað eftir vilja ríkisstjórnarinnar meðal annars í skattamálum sem sérstaklega kemur láglaunafólkinu til góða í hækkuðum rauntekjum. Ég spyr því: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að stuðla nú að því að nýir kjarasamningar geti náðst? Háir stýrivextir áfram eru staðreynd að því er virðist og verðbólgan er ekki til að auðvelda gerð almennra kjarasamninga og nú hafa aðilar vinnumarkaðarins vaxandi áhyggjur af því að hér verði hraður samdráttur meðal annars á byggingarmarkaði. Í kjölfar hruns á verðbréfamörkuðum þar sem úrvalsvísitalan hefur lækkað um tæplega 4.000 stig frá því í miðjum október síðastliðnum virðast bankarnir nánast hættir að veita ný lán til atvinnulífsins og mjög mikið dregur úr lánum til húsnæðiskaupa.

Erlendis frá berast fréttir af umfjöllun um að Ísland stefni í afar harða lendingu og jafnvel hrun fyrirtækja og fjármálalífsins. Talað er um að gengishrun íslensku krónunnar sé á næsta leiti. Í Noregi er fjallað um að Kaupþing bjóði yfir 6% vexti til að fá sem mest af innlánum inn í bankann og að öll lán til bankans séu með 6% skuldatryggingarálagi. Danska viðskiptablaðið Børsen varar mjög við því ástandi sem nú er á Íslandi, eignatengslin séu mikil milli íslenskra stórfyrirtækja sem geti leitt til þess að þeir sem lenda í verulegum erfiðleikum dragi önnur fyrirtæki með sér í fallinu.

Vilhjálmur Egilsson sagði í dag að lítið væri um ný verkefni fram undan og hvetur til þess að ný verkefni verði undirbúin fljótt af ríkinu, ríkissjóður sé fjárhagslega sterkur og verði að koma inn til aukinna verkefna eins og nú horfir í atvinnumálum á komandi hausti því þannig megi ef til vill koma í veg fyrir mikið og vaxandi atvinnuleysi. Ég spyr þess vegna: Hvað segir hæstv. forsætisráðherra við þessu? Einnig spyr ég hvað líði endurskoðun á mótvægisaðgerðunum sem hæstv. forsætisráðherra boðaði. Er þorskkvótinn svo heilagur hjá ríkisstjórninni að ekki megi endurskoða þá röngu ákvörðun?

Atvinnurekendur telja að ný stórverkefni verði að undirbúa, meðal annars á Bakka við Húsavík, í Helguvík og jafnvel stækkun álversins í Straumsvík. Einnig hafa verið nefnd að undanförnu önnur verkefni. Ég spyr ríkisstjórnina: Getur ríkisstjórnin náð saman um iðnaðarkosti miðað við það hvernig ráðherrar hafa þar talað? Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um það sem ég hef hér dregið fram? Ætlar ríkið að lækka skatta á atvinnulífið eða nær ríkisstjórnin saman um ný álver eða aðra iðnaðarkosti?

Hvað með nýjar virkjanir, hæstv. forsætisráðherra? Það var vond ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hafna skattalækkun á láglaunafólk, eldri borgara og öryrkja sem ASÍ lagði til á liðnu hausti. Sú aðgerð hefði haft jákvæð áhrif til lækkunar á verðbólgunni. Við þingmenn Frjálslynda flokksins lögðum fram mál á hv. Alþingi á síðasta hausti um sérstakan persónuafslátt fyrir lágtekjufólk og töldum að þar værum við með gott innlegg til að stuðla að lausn mála.

Nú getur hæstv. forsætisráðherra ekki látið lengur eins og allt sé í stakasta lagi. Hvað mun ríkisstjórnin aðhafast næstu daga til að kjarasamningar náist? Mun til dæmis verða skoðað hvað hægt sé að gera með niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði úti á landsbyggðinni þar sem hitunarkostnaður er mjög hár eins og í dreifbýli? Mun verða skoðað hvar eigi að taka á flutningskostnaðinum og hvernig verður það þá gert? Hefur ríkisstjórnin slíkt í hyggju? Og hvað með skattafrádrátt handa því fólki sem kemur til með að þurfa að sækja atvinnu um langan veg samanber málið sem við ræddum í Alþingi fyrir örskömmu síðan, þingmenn Frjálslynda flokksins? Hyggst ríkisstjórnin aðhafast í málunum?