135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálum hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Með því er ekki verið að segja að ríkisstjórn eigi á hverjum tíma ætíð að rjúka til og þaðan af síður að samþykkja það sem öðrum hvorum samningsaðilanum dettur í hug. En það hlýtur að teljast mikið ábyrgðarleysi við þær aðstæður, miklu efnahagslegu óvissu og stöðu í atvinnumálum eins og hún blasir við að ríkisstjórnin missi þessi mál í raun frá sér og sé ekki með í því að reyna að tryggja farsæla niðurstöðu sem geti hvort tveggja í senn bætt kjör lakast settu hópanna í samfélaginu en um leið verið liður í því að ná tökum á efnahagsástandinu og ná niður verðbólgu. Ég hlýt því í leiðinni einnig að mótmæla því að menn séu að gera það að kröfu í þessum kjarasamningum að setja stóriðjustefnuna á meiri ferð en nokkru sinni fyrr. Ég hélt að það ætti í grunninn að vera aðalviðfangsefni aðila vinnumarkaðarins að semja um kaup en ekki aðra hluti.

En ríkisstjórnin sjálf hlýtur að hafa einhverjar meiningar um það hvernig til dæmis hún vill sjá launastrúktúrinn í samfélaginu þróast. Hefur ríkisstjórnin enga skoðun á því hvað þurfi að gera til að bæta kjör umönnunar- og uppeldisstétta þannig að hægt sé að manna þau störf eða ætlar hún bara að hafa algerlega gagnstæðar skoðanir á því, eins og menntamálaráðherra og fjármálaráðherra hafa á launum kennara? Ég er algerlega sammála menntamálaráðherra að það þarf að bæta kjör kennara. Það þarf líka að bæta kjör umönnunarstéttanna þar sem fólkið er að flýja í burtu.

Hvað segir Samfylkingin í þessum efnum? Er hún sátt við sinnuleysi og doða forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og fjármálaráðherra? Skrifar hún upp á það að ríkisstjórnin skili auðu í sambandi við launakjör þessara hópa sem ég hef nefnt? Það væri fróðlegt að fá að heyra það hvort til dæmis Samfylkingin sé sammála hæstv. (Forseti hringir.) menntamálaráðherra um að það þurfi að bæta kjör kennara eða sammála fjármálaráðherra um að þess þurfi ekki?