135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:13]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er öllum nokkur vandi á höndum að taka þátt í þessari umræðu í dag um kjaramál og efnahagsmál vegna þess að kjaraviðræður eru á lokaspretti hjá aðilum vinnumarkaðarins og líklegt að vonandi fljótlega og jafnvel um helgina muni þeim takast að ljúka þessum viðræðum. Þá er flest sem bendir til þess að leitað verði til ríkisstjórnarinnar um það með hvaða hætti hún ætli að koma að þessum málum. Það er auðvitað mál sem við hljótum að ræða bæði við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins hvernig verði best gert.

Ég vil mótmæla því harðlega sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að ríkisstjórnin hefði sýnt sinnuleysi í þessum málum. Það hefur hún alls ekki gert. Það má svo sem færa rök (Gripið fram í.) fyrir því ef maður er þeirrar skoðunar eins og Steingrímur J. Sigfússon að ríkisstjórnin eigi að taka alla hluti í fangið, hún eigi að taka kjaraviðræður aðila vinnumarkaðarins í fangið og axla á þeim fulla og óskoraða ábyrgð. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að standa vaktina. Við eigum að fylgjast með því sem þar er að gerast og við eigum að vera tilbúin til að koma inn í þær viðræður á réttum tímapunkti (Gripið fram í.) og sá tímapunktur er væntanlega núna um helgina. Það fara ekki fram núna kjaraviðræður á hinum opinbera markaði. Það er hinn almenni markaður og ég hélt að það væri sameiginlegt álit okkar allra hér að það sem þyrfti að gera væri að bæta kjör þeirra lægst launuðu og leita leiða til að bæta kjör umönnunarstéttanna í landinu því þangað vantar okkur fólk til starfa og þar verðum við að taka á málum. En þetta er samstillt átak allra aðila sem þarna verður að koma að, þ.e. ríkisvaldsins, aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingarinnar og annarra viðsemjanda. (Forseti hringir.) Það gerir ekki ríkisstjórnin ein.