135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:46]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu og vísa til þess að fyrir ári, á fundi fjárlaganefndar þann 23. janúar árið 2007, var til umræðu verklag við ákvörðun styrkveitinga og skuldbindandi samninga. Í kjölfarið var ákveðið að Ríkisendurskoðun tæki saman yfirlit um umfang skuldbindandi samninga og styrkja, verklag við ákvörðun og eftirlit með þeim. Ríkisendurskoðun skilaði þeirri skýrslu í mars 2007 en hún fjallaði um skuldbindandi samninga ráðuneyta og styrkveitingar ríkissjóðs frá árinu 2006 og fram á 2007.

Í greinargerð skýrslunnar kom m.a. fram að á þeim tíma höfðu samtals verið gerðir 195 samningar upp á um 94 milljarða kr. sem náðu allt til ársins 2010. Á árinu 2010 var um að ræða 10,2 milljarða kr. Að öðru leyti fjallaði Ríkisendurskoðun ekki, virðulegi forseti, um hvernig ætti að breyta þessu né hvort þetta teldist eðlilegt.

Hins vegar kemur fram, virðulegi forseti, í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins að einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni. Einnig er fjallað um hvernig skuli skilgreina umrædda samninga.

Við fjölluðum um þessi mál í fjárlaganefnd á haustdögum. Þar var þverpólitísk samstaða um að við mundum skoða málið betur. Ég tek undir það sem hæstv. forsætisráðherra segir, að auðvitað þarf að fylgja þessari skýrslu eftir. Fjárlaganefnd kom á starfshópi sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson leiðir og ég á von á að starfshópurinn skili til fjárlaganefndar niðurstöðu á vormánuðum (Forseti hringir.) þar sem við munum fara ítarlega yfir þessi atriði.