135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[15:49]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um samninga um opinber verkefni út frá út frá þeirri úttekt sem umboðsmaður Alþingis gerði, um athugasemdir sem hann hafði við það að setja. Það er í sjálfu sér gott og blessað en sú umræða fór fram hér fyrr á þessu þingi. Þá gerði ég sérstakar athugasemdir og gerði ummæli umboðsmanns að umtalsefni.

Varðandi samninga sem hið opinbera gerir þá er þar um eðlilega leið viðskiptalífsins að ræða. Í sjálfu sér er ekkert út á þá að setja ef eðlileg lagaheimild er fyrir hendi, m.a. fullnægjandi heimildir í fjárlögum og ef um er að ræða að hagkvæmara sé fyrir ríkisvaldið að gera samninga sem eru einkaréttarlegs eðlis en að láta þá framkvæma það sem eru sérstaklega ráðnir af ríkinu til þess að sinna verkefni, með þeim kostnaði sem því fylgir.

Þetta er spurning um hagkvæmni en það þarf að gæta þess, eins og umboðsmaður benti á, að það sé lagaheimild fyrir hendi og að ekki sé útvistað verkefnum þar sem lög mæla sérstaklega fyrir um að stjórnvöld ráði málum til lykta. Þá eru líka atriði sem þarf, og ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Að sjálfsögðu vakti þetta mann til umhugsunar, þær athugasemdir og sjónarmið sem umboðsmaður benti á varðandi það að ríkisvaldið hefði oft og tíðum gengið fullhratt um gleðinnar dyr.

Það full ástæða til þess að vekja athygli á þessu, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur gert, og mikilvægt að ríkisstjórnin gæti þess að halda sig innan ramma lagaheimilda. En það er sjálfsagt fara þá leið að gera samninga þegar það er hagkvæmt fyrir (Forseti hringir.) ríkisvaldið.