135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

samningar um opinber verkefni.

[16:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja máls á því málefni sem við erum að ræða og vekja máls á athugasemdum umboðsmanns Alþingis.

Það er auðvitað svo og hefur lengi verið, þó að vissulega megi telja til, eigum við ekki að segja bara ósiðar, að menn fara um héruð og lofa hinu og þessu fyrir kosningar. Fræg er sagan af manninum sem fór um og sagði: „Skrifaðu flugvöll“ og svo framvegis. En þetta er vissulega nokkuð sem menn mega taka til athugunar. Ég held að það sé rétt að reyna að setja því frekari skorður að það sé gefið mikið af loforðum af ráðherrum rétt fyrir alþingiskosningar. Það er held ég ekki góð latína að fara þannig að.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt varðandi aðfinnslur umboðsmanns Alþingis og þau varnaðarorð sem hann er í raun að beina til okkar og ríkisstjórnarinnar, að fara að málum með gát í þessum efnum. Ég veit til þess líka, eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, sagði hér, að þessi mál eru til umfjöllunar í fjárlaganefnd og verða þar væntanlega tekin til umfjöllunar á næstunni fyrr en seinna og því ber að fagna. Það eru ærin tilefni til þess að taka málið þar til skoðunar. Hér var nefnd Grímseyjarferja og hér voru nefnd málefni sem snúa að ákvörðun um tónlistarhúsið í Reykjavík sem hvort tveggja komu inn í gegnum 6. gr. heimildir á sínum tíma ef ég man rétt. Fleira mætti svo sem til telja. Ég tel því fulla ástæðu fyrir okkur í fjárlaganefndinni að fara yfir þessi mál í góðu tómi og væntanlega verður það gert og ég fagna því.