135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:36]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt til að bregðast við einu atriði einkum og sér í lagi því sem kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Það varðar umfjöllunina um landsskipulagið. Ég get ekki tekið fyllilega undir það með þingmanninum að það sé eðlilegt að landsskipulagsáætlunin sé með þeim hætti rétthærri öðrum skipulagsáætlunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, í því ljósi að sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið. Það er hin almenna regla. Við erum líka bundin af Evrópusáttmála um sjálfstæði sveitarfélaga og ég tel að með því að koma þessu fyrir eins og frumvarpið gerir ráð fyrir sé mjög freklega verið að ganga inn á sjálfsforræði sveitarfélaganna eins og því er lýst í Evrópusáttmálanum og eins og við höfum gjarnan viljað að sveitarfélögin fái aukið vægi og aukið vald til sín.

Ég tel að að þessu leyti sé verið að taka skref til baka en það breytir ekki því að ég er sammála því að það þurfi að vera einhvers konar stefna og einhvers konar tæki af hálfu ríkisins að vissu leyti. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegra að hér væri rætt um einhvers konar landsskipulagsstefnu sem gæti orðið samnefnari, sem gæti verið þannig útfærð að sveitarfélög þyrftu að hafa hana til hliðsjónar eins og var reyndar orðalagið í frumvarpinu sem nefndin setti frá sér, að hafa hana til hliðsjónar frekar en að hún væri bindandi um landnotkun. Við sjáum alveg fyrir okkur að það er mjög auðvelt að fara alveg niður í smáatriði með þannig orðalagi, jafnvel einstaka vegi í samgönguáætlun, vegáætlun, sem er þá orðið bindandi fyrir sveitarfélög að leggja með tilteknum hætti. Þetta er alla vega atriði sem þarf að fara mjög rækilega yfir að mínum dómi af hálfu umhverfisnefndar og fá hin ýmsu sjónarmið þar upp á borðið.