135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst athyglisvert að heyra sjónarmið hv. þingmanns um stöðu og umboð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mér finnst frumvarpið vera eðlilegt út frá því sem stjórnvöld hafa gengið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga á undanförnum áratug. Það hefur allt byggst á samráði við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og ákvæði í frumvarpinu eru í samræmi við það sem áður hefur verið í öðrum lögum. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni í grundvallaratriðum hvað það varðar að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er í raun ekki umboðsaðili sveitarstjórna og hún hefur teygt sig býsna langt í að vera málsvari sveitarfélaga án umboðs. Því miður hefur mér fundist að sú stjórn hafi í æ ríkari mæli verið hagsmunagæsluaðili fyrir stærstu sveitarfélög landsins. Hagsmunir smærri sveitarfélaga, margra hverra, hafa ekki átt eins hátt upp á pallborðið þar og vert væri.

Þetta hefur líka leitt til þess að í stað þess að færa vald og ákvarðanir til sveitarfélaga hefur ríkið leitast við að færa hlutina til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og það hefur í raun og veru verið að þróast á undanförnum áratug sem þriðja stjórnsýslustigið án nokkurs umboðs. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga setur t.d. fjóra menn inn í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hvaða umboð hefur stjórnin til þess, virðulegi forseti?