135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða. Hún lýsti hinu mikla og góða samkomulagi á stjórnarheimilinu. Byrjað var á því að ausa lofi yfir ráðherrann í alla staði við samráð og undirbúning og annað slíkt sem væri með miklum ágætum. Hv. þingmaður fór svo í gegnum frumvarpið lið fyrir lið og henti því út af borðinu. Það var of flókið, of margar stofnanir og gerðar of miklar kröfur til byggingarfulltrúa og of litlar til forstjóra. Mér heyrðist jafnræðisreglan í einhverju uppnámi. Það vantaði kæruferli ágreiningsmála. Úrskurðarnefnd var með öllu óásættanleg þótt hún vildi samt ekki dæma hana til dauða. Landsskipulagsáætlun taldi hún mjög torvelda og vantaði frekari hugmyndafræði til að menn gætu sætt sig við þetta yfir höfuð.

Ég spyr, virðulegi forseti, styður þingmaðurinn þetta stjórnarfrumvarp eða er Sjálfstæðisflokkurinn á móti því? Ég gat ekki heyrt af ræðu hv. þingmanns að nokkuð væri eftir í frumvarpinu sem hún styddi. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvort hv. þingmaður sé, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, í bullandi stjórnarandstöðu í þessu stjórnarfrumvarpi.