135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:27]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Hér er til umfjöllunar stórt og viðamikið frumvarp um skipulagsmál. Eitt stærsta málið sem sveitarstjórnir vinna að er gerð aðalskipulags. Það er tæki sem sveitarstjórnir vinna með og þar kemur fram stefna þeirra varðandi landnotkun til margra ára.

Sveitarfélög leggja mikla vinnu í gerð aðalskipulags. Það skiptir máli fyrir sveitarfélög að vanda til þess verks. Í aðalskipulagsvinnu þarf að horfa til margra þátta varðandi byggðaþróun, framtíðarsamgöngur og þjónustuþörf íbúa auk fjölda annarra þátta. Aðalskipulagi er ætlað að vera sveitarstjórnarmönnum og embættismönnum stjórntæki og gefa íbúum og hagsmunaaðilum yfirsýn yfir landnotkun og stefnu til næstu framtíðar. Flest sveitarfélög vinna nú að endurskoðun aðalskipulags. Meira og betra samráð við almenning varðandi skipulagsmál er til bóta og jákvætt.

Í 9. gr. er fjallað um svæðisskipulagsnefndir og talin ástæða til að festa þær frekar í sessi. Það tel ég mjög gott, að tryggja nægjanlegt samráð á milli sveitarfélaga varðandi skipulag á svæðum þar sem sveitarfélagamörk koma saman svo samfella í skipulagsmálum sé tryggð eins og hægt er. Ég tel að þetta atriði sé eitt af fjölmörgum í frumvarpinu sem er til bóta.

En hvað varðar 10. gr. um landsskipulag hef ég nokkrar efasemdir. Ég tel ekki gott að sveitarfélögin skuli endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins í samræmi við landsskipulag, eins og segir í frumvarpinu. Þessi grein þarf endurskoðunar við eins og margoft hefur komið hér fram í umræðunni í dag. Þarna er að mínu mati of langt gengið á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna.

Eins og ég sagði í upphafi leggja sveitarfélögin mikla vinnu í gerð aðalskipulags og hjá sveitarfélögunum liggur fyrir mikil þekking og reynsla í skipulagsmálum sem ekki má vanmeta. Ég tel fulla ástæðu til að umhverfisnefnd skoði þessa grein vel með tilliti til sjálfstæðis sveitarfélaga. Ég heyri ekki annað í umræðunni en að þetta stóra atriði frumvarpsins verði tekið til rækilegrar skoðunar í nefndinni.

Í frumvarpi til laga um mannvirki sem verður á dagskrá á eftir, sem ég verð að fá að nefna, virðulegi forseti, er talað um mannvirki sem Byggingarstofnun veiti byggingarleyfi fyrir. Meðal þeirra mannvirkja eru upptalin mannvirki á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar. Í því frumvarpi er talað um að leitað skuli umsagnar skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar vegna þeirra mannvirkja. Í skýringum með mannvirkjafrumvarpinu er talað um að í frumvarpi til skipulagslaga sé lagt til að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn skipulagsmála á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar. Hins vegar get ég ekki séð, svo óyggjandi sé, að um þessa skipan mála sé fjallað í skipulagsfrumvarpinu sem hér liggur fyrir. Í 8. gr. þess er fjallað um að utanríkisráðherra skipi skipulagsnefnd fyrir varnar- og öryggissvæðin en ekkert fjallað um hinn þáttinn. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvernig þessum málum verður komið fyrir. Verður sérstök skipulagsnefnd fyrir flugvallarsvæðið og þá hvernig verður skipað í hana?

Það skiptir miklu máli að sveitarfélögin sem liggja að flugvallarsvæðinu, þ.e. Garður, Sandgerði og Reykjanesbær, komi að skipulagsmálum svæðisins, m.a. til að tryggja þá skipulagsheild sem ég nefndi áðan. Mér finnst þetta mál nokkuð óskýrt en auðvitað getur verið mjög einföld skýring á þessu. Þess vegna þætti mér gott ef hæstv. umhverfisráðherra gæti skýrt þetta mál þannig að ljóst sé hvernig þessum málum verði háttað í framtíðinni.