135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:46]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svör hennar og skýringar eftir þá miklu umræðu sem farið hefur fram í dag um þennan lagabálk.

Það er aðeins eitt atriði sem mig langar að heyra frekar um og það varðar einmitt landsskipulagsáætlunina, þingsályktunartillöguna. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, fannst mér eins og það væri nefnt að slík áætlun færi ekki til umsagnar heldur kæmi beint fyrir hið háa Alþingi. Nú er það svo með áætlanir eins og samgönguáætlun, náttúruverndaráætlun og byggðaáætlun að þær fara meira og minna til umsagnar. Þegar þær koma inn til þingsins fara þær til viðkomandi nefnda og í þessu tilfelli umhverfisnefndar og sú nefnd mundi þá senda þingsályktunartillöguna til umfjöllunar. Ég bendi bara á að þetta mun verða heilmikið umfjöllunarferli.