135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

mannvirki.

375. mál
[18:14]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum þegar tekur að líða á þennan ágæta dag að ræða frumvarp til laga um mannvirki. Þau eru sýnu efnismeiri, víðtækari og viðameiri en sá lagabálkur sem við vorum að ræða áðan, skipulagslögin. Það er ekki síður mikilvægt að þessi lög sem við erum að fjalla um verði heilsteypt. Kannski sökum þess hversu stór og viðamikill þessi lagabálkur er þá eru efnisatriði þau sem ég kem inn á minni. Ég hef ekki öðlast þá miklu reynslu eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að vera búinn að sitja hátt í áratug í nefnd er undirbjó þessa lagabálka og þekkir þess vegna forsöguna og hverja grein eins og fingurna á sér. Það er gott að hafa slíkan mann í umhverfisnefnd og margt af því sem hv. þingmaður sagði áðan, margt, allflest get ég tekið undir. Ég er sammála honum um mjög margt og þess vegna get ég stytt mál mitt hvað það varðar. Málið er sem sé viðamikið og það er flókið. Það er alls ekki einfalt að koma svona lagabálk saman. Það er í eðli sínu flókið, ekki að það sé verið að flækja það endilega í þessu frumvarpi.

Ég hef sagt það fyrr í dag um skipulagslögin að það sé mín skoðun að fara eigi ítarlega í saumana á því hvort ekki sé rétt að hafa þetta innan einnar stofnunar, skipulags- og byggingarmálin, og ætla ekkert að fara fleiri orðum um það. Mikilvægi þessa lagabálks varðar viðhald og rekstur bygginga. Við þekkjum þá sögu á Íslandi að undangengna áratugi höfum við verið að fjárfesta gríðarlega mikið í nýbyggingum. Viðhaldskostnaður hefur ekki verið í takt við þær miklu nýframkvæmdir vegna þess að við erum með ungar byggingar í landinu. En nú næstu árin og næstu áratugina mun þetta dæmi snúast við þannig að viðhaldskostnaður mun fara að verða meiri en jafnvel nýframkvæmdir og þess vegna er og hefur alla tíð verið gríðarlega mikilvægt að vandað sé til bygginga. Það getum við sagt að sé okkar sjálfbæra þróun að viðhald og rekstur bygginga sé þannig að kostnaðurinn verði sem lægstur og þar skiptir máli auðvitað eftirlitsþátturinn. Við höfum heyrt um og vitum um dæmi þess að það hafi ekki verið vandað nóg til nýbygginga hér á landi. Ég held að þessi lög muni bæta þar um.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom aðeins inn á byggingarfulltrúana um það nýmæli sem hér er lagt til um að þeir verði lagðir niður. Ég get fullkomlega, eins og ég sagði áðan, tekið undir hans afstöðu hvað það varðar og það mun hv. umhverfisnefnd skoða enn frekar.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um 2. gr. frumvarpsins. Reyndar kemur það inn á fleiri greinar eins og 8. gr. Það er um gildissviðið, hvaða framkvæmdir þetta taki yfir og eins um byggingarleyfin. Mig langaði að hafa spurninguna þess eðlis hvort eðlilegt sé að tengja saman gildissviðið og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir við þær framkvæmdir sem borga fasteignagjöld. Það er ekki tekið á því neitt. Nú þekkjum við það að fasteignagjöld eða lög um fasteignagjöld fara ekki alveg saman við það sem þarna er verið að tala um. Mig langar aðeins að fá að vita hvort það hefði verið í umræðunni eða til skoðunar við þessa lagasmíð og sjáum hvort það sé raunhæft að gera það.

Síðan kemur fram í 13. gr. gildistími byggingarleyfa. Ég ætla örskot að fara inn í greinina. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Byggingarleyfi fellur úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Í reglugerð skal kveða nánar á um hvenær talið er að byggingarframkvæmdir séu hafnar.“

Þarna finnst mér annars vegar lögin segja þetta 12 mánaða tímabil en svo gefur aftur reglugerðin færi á að túlka þetta með sínum hætti. Þetta finnst mér vera atriði við yfirlestur þessa frumvarps sem ég hjó eftir og vildi ég spyrja um það.

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort það sé ekki í takt og stefna núverandi ríkisstjórnar að þær nýjar stofnanir sem verða búnar til — sem ég vænti og vona að verði ein eins og fram hefur komið í mínum ræðum — hvort það væri ekki eðlilegt að slík stofnun verði einhvers staðar utan höfuðborgarsvæðisins.